Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Guðni á trukknum  -  heimildamynd sýnd á miðvikudagskvöld
Mánudagur 22. janúar 2018 kl. 10:09

Guðni á trukknum - heimildamynd sýnd á miðvikudagskvöld

Sunnudaginn 14. janúar sl. var frumsýnd  heimildamynd eftir Guðmund Magnússon kvikmyndagerðarmann. Sýnt var í samkomusal Gerðaskóla. Myndin fjallar um lífshlaup Guðna Ingimundarsonar frá Garðstöðum í Garði. Myndinni var vel tekið.
 
Myndin hefur verið til vinnslu undangengin ár, byggir á frásögn Guðna, viðtölum við samferðamenn og fjölbreyttu myndefni, gömlu og nýju. Hörður Gíslason gerði handrit.
 
Guðni er fæddur árið 1923, gerði út trukk með lyftibúnaði og loftpressu og sá um fleygun og sprengdi jarðveg á suðurnesjum um hálfrar aldar skeið. Að því loknu hefur hann gert upp á annað hundrað véla af mörgum gerðum, gert þær gangfærar að nýju. Vélarnar eru til sýnis í Byggðasafninu í Garðinum. Þá kom Guðni með trukkinn að fjölda verkefna í höfnum á suðurnesjum, tengt framkvæmdum við hafnarmannvirki eða við lagfæringu og tilfærslu báta. Þá var hann kvaddur til aðstoðar við lausn á fjölbreyttum verkefnum tengt viðgerðum og flutningi á margs konar búnaði. Gjarnan fór hann um vegi á Suðurnesjum í óverðum til aðstoðar áður en björgunarsveitir náðu núverandi styrk. Um árabil glímdi hann við að ná málmum í fjörum úr skipum sem þar urðu til og útbjó sig með búnað til þess.  Fór með trukkinn á fjöru allt út í Flasarhaus á Garðskaga og var ætíð kominn með búnað sinn að landi áður en flæddi. Hreinsun málma úr fjörum má flokka með umhverfisvernd. 
 
Guðni var vitavörður á Garðskaga og Hólmsbergi í 25 ár.
 
Heimildamyndin um Guðna verður sýnd öðru sinni miðvikudaginn 24. janúar í skólanum í Garðinum kl. 19:30.
 
Styrktaraðilar myndarinnar eru Sveitarfélagið Garður, Uppbyggingasjóður Suðurnesja, Isavia, Axel Jónsson, Sigurður Ingvarsson, Tómas Knútsson og fjölskylda Guðna.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024