GUÐMUND Í EFSTA SÆTIÐ
Það er mikilvægt í fyrsta prófkjöri nýrrar sameinaðrar hreyfingar jafnaðarmanna og félagshyggjufólks, að vel takist til við skipan hins nýja lista Samfylkingarinnar hér í Reykjaneskjördæmi. Prófkjörið sem fram fer 5.og 6.febrúar næstkomandi og er öllum stuðningsmönnum opið, mun ráða því hvernig forystusveit okkar mun líta út í kosningabaráttunni í vor.Fjölmargt gott fólk er að finna í hópi frambjóðenda, sem eru 19 talsins. Það skiptir miklu máli hvernig forystu verður háttað á listanum. Guðmundur Árni Stefánsson alþingismaður er mjög vel til forystu fallinn og er það mín skoðun að hann sómi sér vel í 1.sæti listans. Hann er baráttumaður bæði í sókn og vörn og þótt ungur sé að árum, hefur hann margháttaða reynslu í meðvindi sem mótvindi, í stjórnmálum og lífinu almennt.Ég minni líka á, að Guðmundur Árni reyndist okkur betri en enginn þann stutta tíma sem hann gegndi störfum heilbrigðisráðherra. Beinn stuðningur hans og handfastur við byggingu D- álmu var meiri og raunverulegri en flestra annarra og almennt naut heilbrigðisþjónustan hér suður frá atorku hans og velvilja.Samfylking jafnaðarmanna í Reykjaneskjördæmi verður í góðum höndum undir forystu Guðmundar Árna.Kristmundur Ásmundssonyfirlæknir og bæjarfulltrúi.