Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

Guðbergur með áróðurssýningu í Saltfisksetrinu í Grindavík
Föstudagur 2. júlí 2010 kl. 09:20

Guðbergur með áróðurssýningu í Saltfisksetrinu í Grindavík

Guðbergur Bergsson rithöfundur og heiðursborgari Grindavíkurbæjar opnar áróðurssýningu í Saltfisksetrinu í Grindavík næsta laugardag kl. 14:00. Þar sýnir Guðbergur fjöldann allan af áróðursveggspjöldum sem hann hefur safnað í gegnum tíðina í langdvölum sínum víða um heim. Við opnunina mun Guðbergur leiða gesti í gegnum sýninguna og þau mörgu stórmerkilegu áróðursveggspjöld sem þar er að finna.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Áróður á veggspjöldum er staðhæfing eða staðfesting á einhverju án þess að reynt sé að leiða áhorfandann með rökum í allan sannleikann. Aldrei er höfðað til vitsmuna heldur tilfinninga. Boðskapurinn blasir þá við augum og býr um sig í hjarta hvers heilbrigðs manns,“ segir í inngangi Guðbergs að sýningunni.
Á sýningunni eru m.a. áróðursveggspjöld ýmissa einræðisherra og stjórnmálaforingja, frá nasisma Þýskalands, fasisma Ítalíu, kommúnisma og kalda stríði Sovétríkjanna, byltingunni á Spáni, Portúgal og nýlendunum í Afríku, þarna eru veggspjöld tengd listum og ýmislegt fleira forvitnilegt.

Í inngangi að sýningunni segir Guðbergur jafnframt: „Þessi sýning er haldin í þeim tilgangi að reyna örlítið að leiða áhorfandanum fyrir sjónir ýmsar tegundir af áróðri, en einkum þann sem var mest áberandi á síðustu öld og aðferðir sem honum fylgdu. Hér er stuðst við veggspjöld. Þau voru talin vera áhrifaríkust sem miðill, hentugur til að „laða“ fólk að málstaðnum með góðu svo ekki þyrfti að gera það með illu, sem er samt talið vera besta og áhrifaríkasta meðalið: Með illu skal illt út reka!“