Grúskar í gömlum skjölum
Hún yrði löng ferilskrá Eiríks Hermannssonar ef hann myndi útbúa eina slíka í dag því maðurinn er reynslubolti. Eirík Hermannsson þekkja margir frá því að hann var fræðslustjóri Reykjanesbæjar en hann mótaði það starf í byrjun eða frá árinu 1996 til ársins 2011, þegar hann ákvað, sextugur að aldri, að hætta störfum og fara í sagnfræðinám við Háskóla Íslands.
Eiríkur hefur komið víða við á starfsferli sínum og má þar meðal annars nefna kennslu, blaðamennsku, lögreglustörf og skólastjórastöðu svo eitthvað sé nefnt.
Í dag segist hann vera húskarl heima hjá sér en lætur það samt ekki nægja, því nýlega var gefið út heimildarrit sem hann skrifaði um tónlistarsögu Suðurnesja fyrir 1960.
Ennfremur er hann vinna úr heimildum um mál nokkurra afbrotabænda á Íslandi upp úr aldamótunum 1800, sem fer á bók sem verður gefin út innan tíðar.
Situr ekki auðum höndum
„Ég ákvað að fara í sagnfræði við HÍ og var með þeim allra elstu en samt voru allir nemendur jafnir. Stundum fann ég þó til aldursins á skemmtilegan hátt þegar verið var að rifja upp tuttugustu öldina því þá hafði ég iðulega upplifað atburðina sem rætt var um. Ég kláraði meistaranám í sagnfræði árið 2016. Hugsun mín með náminu var sú að hafa eitthvað fyrir stafni þegar aldurinn segði til sín og að geta unnið á eigin hraða. Mér finnst sagnfræði áhugaverð og hef tekið að mér verkefni eftir námið en ákvað að hvíla það í bili því ég er að einbeita mér núna að bók sem ég er að skrifa. Bókin er skrifuð út frá meistararitgerð minni sem fjallaði um íslenska bændur sem leiddust út í það að verða afbrotamenn upp úr Móðuharðindunum. Ég nota dómabækur til þess að fá mynd af fjölskyldum og aðstæðum þeirra hér á landi um og upp úr aldamótunum 1800, þar sem nokkrir bændur gerðust sauðaþjófar. Þetta voru harðindatímar og þeir höfðu yfirleitt leiðst út í þetta vegna hungurs og ótta um afkomu fjölskyldu sinnar. Ég rannsakaði mál fimm fjölskyldna og fjallaði öðrum þræði um dómskerfið og framkvæmd refsinga. Það voru hörð viðurlög við þessu og menn voru settir í lífstíðarþrælkun í járnum og kagstrýkingu. Þeir voru hýddir og sendir til afplánunar í Stokkhúsinu í Kaupmannahöfn, sem var herfangelsi. Allmargir íslenskir sakamenn voru sendir þangað en fangelsi þetta var svo nefnt vegna þess að þar voru menn hlekkjaðir við bjálka eða stokk. Menn fóru þangað í þrælkunarvinnu í hlekkjum en framkvæmdin var mjög handahófskennd og sumir voru sendir út en ekki aðrir. Engin skýring er gefin á þessari framkvæmd nema að stundum virtist sýslumönnum umhugað um að losa sig við flakkara og hreinsa til í sveitinni,“ segir Eiríkur.
Sauðaþjófnaður alvarlegur glæpur
Ekki er búið að ákveða tímasetningu á útkomu bókarinnar sem fjallar um þetta áhugaverða efni en Eiríkur segir:
„Ég er núna að skrifa um sex menn sem ekki voru allir bændur og út frá gögnunum sem ég er að skoða er að verða til saga. Þetta er eins og þegar köttur er að elta hnykil, sagan verður skýrari og skýrari eftir því sem ég les meira um aðstæður þessa fólks í skjölum. Fjölskyldur eru að leysast upp og ég er að fylgjast með þeim, þetta er ættfræði í aðra röndina. Það vill svo til að einn þessara manna á stóran ættlegg hingað suður sem ég tengist einnig. Það er hægt að vinna í þessu með þolinmæði og með setu á Þjóðskjalasafninu í Reykjavík og í Kaupmannahöfn en þangað er ég einnig búinn að fara í leit að gögnum. Tveir þessara manna dóu í fangelsi í Kaupmannahöfn og ég veit hvar grafreitur fanga var og hvar þeir liggja. Einn af hverjum fjórum íslenskum föngum lést í Stokkhúsinu en þar voru aðstæður bágbornar. Dánarorsök eins var taugaveiki sem var kölluð fangelsissótt á þeim tíma en flær voru smitberar.“
Bók í vinnslu
Þessi athyglisverða bók sem Eiríkur vinnur nú að, mun sjálfsagt vekja áhuga margra, sem eru forvitnir um þessa hlið sakamála á Íslandi.
„Ég er kominn langt í heimildaröflun en þarf að fara til Köben aftur vegna þessa. Ég hef verið að skoða handskrifuð skjöl, rúmlega tvö hundruð ára gömul, sem eru langflest á dönsku en einhver eru á íslensku. Maður þjálfast við lesturinn á þessum gögnum en bæði tungumál og skriftarmáti hefur breyst. Ritgerð mína kallaði ég Vonskuverk og misgjörningar og ætli það verði ekki nafnið á bókinni. Þetta er raunar saga af alþýðumönnum, sem ég hugsa fyrir hinn almenna lesanda og veit ekki til þess að svona saga hafi verið skráð áður hér á landi. Þessir bændur sem ég er að skrifa um, voru afskrifaðir og útskúfaðir á sínum tíma og líklega hefur mikil skömm fylgt fjölskyldum þeirra, þó það sé engan veginn víst,“ segir Eiríkur, sem brátt getur titlað sig rithöfund.
Tónlistarsaga Suðurnesja fyrir 1960
Eins og lesendur eru líklega farnir að átta sig á þá hefur Eiríkur mjög gaman af sögu þjóðar. Nýlega átti hann stóran þátt í útgáfu heimildarritsins Frumkvöðlar og tónlistarrætur á Suðurnesjum fyrir 1960 sem Uppbyggingarsjóður Suðurnesja stóð að.
„Ég var beðinn um að taka saman upplýsingar um frumkvöðla tónlistar á Suðurnesjum en þetta er saga okkar á undan rokkinu, sem byggir á viðtölum en þarna er meðal annars fjallað um fyrstu hljómsveitina, sem vitað er um í Keflavík. Ég reyndi einnig að safna myndum sem prýða frásögnina. Á þessum tíma fyrir 1960, voru eingöngu karlmenn opinberir í tónlist nema í kirkjum, þar voru einnig konur. Ég byrjaði á að tala við Hrein Óskarsson sem var einn af stofnendum Lúðrasveitar Keflavíkur og síðan Herbert Hriberschek Ágústsson en þeir nefndu fleiri nöfn sem leiddu mig áfram, eins og Guðmund H. Norðdahl tónlistarmann, Jóa Klöru og fleiri. Þessir menn, sem geta sagt okkur frá þessu tímabili í sögunni, eru margir að hverfa af sjónarsviðinu og sum viðtölin máttu ekki dragast mikið lengur, þrír viðmælenda minna eru látnir. Ég náði ekki að ræða við Baldur Júlíusson sem var sjálfmenntaður tónlistarmaður með hljómsveit á snærum sínum en talaði við Þóri son hans. Guðmundur Norðdahl er nýlega látinn hann hafði mest áhrif á tónlistarsögu svæðisins þegar hann flutti frá Reykjavík hingað suður en þá hafði hann verið hátt skrifaður í höfuðborginni. Ég færi fyrir því rök að fyrsti angi rokktónlistar á Suðurnesjum hafi sprottið upp úr Lúðrasveit Keflavíkur sem Guðmundur Norðdahl stofnaði. Þetta voru strákar sem Guðmundur kenndi á hljóðfæri en þetta var fyrir tíma tónlistarskólanna,“ segir Eiríkur og er hvergi nærri búinn að segja blaðamanni frá þessum merkilegu upphafsárum tónlistarsköpunar á Suðurnesjum.
Danshljómsveit í Gaggó
„Svo var það í kringum 1954 sem strákar stofna danshljómsveit sem hét Hljómsveit Gagnfræðaskólans í Keflavík en í henni voru fyrstir, þeir Agnar Sigurvinsson, Magnús Sigtryggsson, Eggert Kristinsson, Hörður Jónasson og Þórir Baldursson sem þá var 12 ára gamall. Þeir spiluðu á saxófón, harmonikku, klarinett, píanó og trommur. Rögnvaldur Sæmundsson, skólastjóri Gagnfræðaskólans, keypti trommusett fyrir skólann. Þessi skólahljómsveit starfaði samfleytt upp frá því í Gaggó með nýjum meðlimum auðvitað eftir því sem árin liðu. Með henni komu fram margir frumkvöðlar sem ruddu brautina. Rafmagnsgítar kom ekki til landsins fyrr en seinna. Jói Klöru var sá fyrsti hér sem spilaði á rafmagnsgítar hér syðra en hann var þó ekki í skólahljómsveit. Áðurnefnt heimildarrit, sem nálgast má í Safnamiðstöð Duushúsa, gefur okkur innsýn inn í tónlistarlíf á Suðurnesjum og fjallar um frumkvöðlana á þessum árum fyrir 1960,“ segir Eiríkur.
Hvers vegna þessi gróska í tónlist á Suðurnesjum?
„Það er ekkert einhlítt svar til við því. Skýringuna gæti verið að finna í aðgengi ungs fólks að tónlist á þessum tíma. Varnarliðið hafði sín áhrif með útvarpssendingum en hér var einnig markvisst verið að vinna með tónlist. Ég man þegar ég var tíu ára gamall árið 1961 að þá byrjaði ég í drengjalúðrasveit í Barnaskólanum. Þetta var merkilegt framtak sem faðir minn heitinn, Hermann Eiríksson, sem þá var skólastjóri, og Herbert H. Ágústsson stóðu fyrir. Þeir ræddu sín á milli um tónlistarlífið í bænum og að það vantaði endurnýjun nemenda til þess að fara seinna inn í lúðrasveitina sem var í basli. Pabbi sótti um fjárveitingu hjá bænum og fékk myndarlegan styrk til þess að kaupa hljóðfæri fyrir þrjátíu drengi en auk þess heimild til þess að ráða Herbert sem tónlistarkennara og lúðrarsveitarstjóra skólans. Það mættu 110 strákar í inntökupróf og úr þeim hópi voru valdir þrjátíu drengir í lúðrasveitina. Þeir skuldbundu sig jafnframt um að vera með í fjögur ár en þarna fengu þeir tækifæri til þess að læra á hljóðfæri og nota það án endurgjalds, allt var frítt. Þetta framtak gaf mörgum drengjum tækifæri til þess að læra á hljóðfæri, sem ekki hefðu getað það ella en stúlkur blésu ekki í lúðra á þessum tíma. Það er sterk hefð fyrir lúðrasveit hér á Suðurnesjum og við höfum verið heppin með stjórnendur. Í dag er það Karen Sturlaugsson sem heldur á sprotanum en hún kom inn í þennan frjóa jarðveg á sínum tíma, sem áður hafði verið lagður af frumkvöðlum í lúðrasveit á Suðurnesjum,“ segir Eiríkur og maður veltir því fyrir sér hversu margir tónlistarsnillingar hafi byrjað fyrstu skrefin sín einmitt í lúðrasveit.
Hvað gerir húskarlinn annað við tíma sinn?
Það er auðheyrt að Eiríkur hefur nóg á könnu sinni en fyrir utan allt þetta grúsk í gamla tímanum, þá sér hann um heimilið á meðan eiginkonan, Oddný Guðbjörg Harðardóttir, er þingkona kjördæmis okkar.
„Ég kalla mig nú hreindýr líka en ég reyni að sjá um að taka til heima og hafa hreint. Svo elda ég mat, svona þegar ég á von á Oddnýju í kvöldmat en annars fylgir þessu mikið frelsi. Ég ræð mér sjálfur og tíma mínum en samt finnst mér gott að vakna snemma og byrja að skrifa klukkan átta og er að því til hádegis. Ég vinn best á morgnana. Svo fer ég auðvitað út með hundinn í langan göngutúr en viðra hann fyrst um leið og ég vakna. Eftir hádegi fáum við okkur góðan göngutúr saman. Það er nóg að gera. Samvera með fjölskyldunni eru dýrmætar stundir. Við hjónin eigum tvær uppkomnar dætur og fjögur barnabörn, það er yndislegt, besta hlutverk í heimi. Þá er ég að syngja með félögum mínum í Söngsveitinni Víkingar en við erum yfirleitt með eina til tvenna tónleika á ári í boði styrktaraðila. Við erum hættir að selja miða á tónleikana okkar því við viljum að allir njóti tónlistar. Við erum mjög þakklátir þeim fyrirtækjum sem eru okkur velviljuð og styrkja tónleikahaldið. Framundan er sumarið og þá förum við með hjólhýsið af stað út á land, um leið og færi gefst, það er gaman. Ég hef einnig gaman af því að veiða silung á flugu og hef farið í Veiðivötn frá árinu 1980,“ segir Eiríkur og brosir breitt við tilhugsunina um skemmtilegt sumar framundan.