Grunnskólanemendur kynntu sér störf alþingismanna
Nemendur 10. bekkjar í Sandgerði tóku á dögunum þátt í Skólaþingi þar sem þau kynntu sér starf og hlutverk þingmanna á Alþingi. Nemendur fóru í hlutverkaleik og fóru að mestu eftir reglum um starfshætti Alþingis. Síðan árið 2009 hafa 10. bekkir við Grunnskólann í Sandgerði sótt Skólaþingið þar sem þau fá ákveðin málefni til að leggja fyrir þingið, ræða í nefndum og greiða svo atkvæði um málin. Þau fá meðal annars að flytja mál, gera breytingartillögur og gera grein fyrir atkvæði sínu. Að sögn Ragnhildar L. Guðmundsdóttir, þjóðfélagsfræðikennara og náms- og starfsráðgjafa við Grunnskólann í Sandgerði, er ferðin mikilvægur þáttur til að dýpka skilning nemenda á stjórnkerfinu og tengist að hluta til námsefni í þjóðfélagsfræði auk náms- og starfsfræðslu.
Eftir Skólaþingið fóru nemendur á þingpalla og kynntu sér þingfund sem þá var í gangi. Leiðin lá í Borgarholtsskóla eftir þingstörfin þar sem nemendur fengu kynningu á námi í bílgreinum en það er ekki kennt í heimaskóla sem er Fjölbrautaskóli Suðurnesja. Eftir Borgarholtsskóla lá leiðin í Menntaskólann í Kópavogi en þar fengu nemendur kynningu á hótel- og matvælaskólanum. „Við höfum alltaf reynt að kynna nám sem ekki er hægt að stunda nema að litlu leiti í heimabyggð,“ segir Ragnhildur.
Eftir skólaheimsóknir fór hópurinn í heimsókn í Ríkisútvarpið. Þar var farið í skoðunarferð um myndver, búningadeild, útvarpsleikhúsið og í útsendingarherbergi útvarps og sjónvarps. Í ferðunum hefur skapast sú venja að ljúka deginum á því að hópurinn fari saman út að borða og var engin undantekning á því í ár.