Gróska við Vogatjörn
Í fyrrasumar voru miklar framkvæmdir við norðurbakka Vogatjarnar og eðlilega fylgdi því töluvert rask. Nú er það að mestu gróið eins og sjá má á myndinni og áningarstaðurinn tekur sig vel út.
Á þessum stað var mokað upp gróðri og jarðvegi og þannig tafið fyrir því að þessi hluti tjarnarinnar grói upp og breytist í mýri. Jaðar hólmans var hækkaður lítið eitt á smá kafla ef það mætti greiða fyrir varpi fugla. Þarna er mikil gróska og gulstörin fljót að græða upp moldararsárin.
Gerð var tilraun með að slá austari hluta hólmans (til vinstri á myndinni) því sumir álitu að það hefði góð áhrif á gróðurinn og fuglalífið, en hólminn var ávallt sleginn og heyið hirt en því var hætt fyrir um 4 áratugum síðan. Að þessu sinni var heyið ekki hirt heldur látið liggja og rotna rétt eins og á óslegna hlutanum. Eins og sjá má á myndinni virðist niðurstaða tilraunarinna vera sú að það breyti litlu hvort hólminn er sleginn.
Það er eðli tjarna að grynnast og breytast smám saman í flóa eða mýrar. Hægt er að fylgjast með því gerast í Vogatjörn þar sem plöntur eins og lófótur, síkjamari, engjarós, vatnsnál, skriðlíngresi o.fl. vaxa vel í grunnu vatninu og leifar þeirra safnast smám saman á botninn ásamt fokefnum svo hann hækkar og fleiri tegundir geta numið land.
Það er mikið dýralíf í Vogatjörn en dýrin sem þar lifa eru flest svo smá að þau sjást naumast með berum augum. Nemendur í 6. bekk Stóru-Vogaskóla rannsaka þau á haustin og mörg börn leika sér að því að veiða hornsíli og jafnvel brunnklukkur. Það eru oft fuglar á tjörninni sem koma þar við til að baða sig og fá sér eitthvað í svanginn. Í sumar varp eitt stokkandarpar í hólmanum og kom upp ungum. Sennilega myndu mun fleiri verpa í hólmanum ef ekki væri stöðug umferð katta á bökkum tjarnarinnar en fuglar eru eðlilega mjög hræddir við ketti.
Frá þessu er greint á vef Voga.