Grísæði í Reykjanesbæ!
Í Heiðarskóla hefur sú hefð skapast að nemendur í leiklistarvali á unglingastigi setji árlega upp leiksýningu í tilefni árshátíðar skólans. Í ár eru tíu ár síðan skólinn setti upp söngleikinn Grís og því vel við hæfi að endurtaka leikinn.
Alls voru tuttugu hæfileikaríkir nemendur skráðir í valið og reyndist það því nokkuð erfitt að raða í hlutverkin sem flest krefjast þess að nemendur geti sungið, dansað og leikið. Allir hafa lagt sitt af mörkum við að gera þessa sýningu að veruleika og ekki annað hægt en að fyllast stolti yfir þessum frábæra hópi sem hefur sýnt mikla þrautseigju þrátt fyrir ýmsar óvæntar uppákomur, en Covid setti stórt strik í reikninginn í upphafi æfingatímabilsins og gerði okkur erfitt fyrir. Nemendur létu samt ekki deigan síga og mættu á aukaæfingar til að allt gengi upp.
Mikil vinna liggur er á baki svona sýningu og vilja leikstýrur þakka öllum þeim sem komu að uppsetningunni á einhvern hátt. Almennar sýningar verða á sal Heiðarskóla, mánudaginn 28. mars kl. 20:00 og þriðjudaginn 29. mars kl.18:00 og 20:00. miðaverð er 1.000 kr. Allir velkomnir meðan húsrúm leyfir.