Grís í Frumleikhúsinu
Nú standa yfir æfingar á söngleiknum Grís í Frumleikhúsinu en þar eru á ferðinni tvær leikstýrur sem kalla sig Gylturnar ásamt hópi krakka úr 7.-10 bekk frá flestum grunnskólum á Suðurnesjum.
Hugmyndin kviknaði í upphafi árs og framkvæmdir hófust í vor með leik-, söng- og dansprufum. Hópurinn hefur verið að koma fram á nokkrum viðburðum við frábærar undirtektir og stefnir í flotta sýningu. Verkið verður frumsýnt núna í lok september ef allt gengur upp og því brjálaðar æfingar framundan.
Það eru þær stöllur úr Leikfélagi Keflavíkur, Guðný Kristjánsdóttir og Halla Karen Guðjónsdóttir sem leikstýra og sjá um að koma verkinu á svið með aðstoð góðra manna en uppsetningin hlaut styrk frá Menningarráði Suðurnesja. Krakkarnir hafa staðið í ströngu við undirbúning sýningarinnar enda að mörgu að hyggja ef sýningin á að slá í gegn.
Suðurnesjamenn munu fá að fylgjast með undirbúningi sýningarinnar á VF fram að frumsýningu.