Grindvískir rokkarar með stórtónleika
Í dag, laugardaginn 19. mars, ætlar hópur öflugs tónlistarfólks að koma saman í Grindavíkurkirkju kl. 20:00. Alls koma fram 13 flytjendur, sem flestir búa í , hafa búið í eða tengjast Grindavík á einhvern hátt. Þetta fólk kemur úr ólíkum áttum en á það sameiginlegt að njóta þess að flytja frábæra tónlist.
Hópurinn ætlar að flytja framsækið rokk (e. Progressive Rock), sem átti sitt blómaskeið á áttunda áratugnum. Flutt verða lög eftir hljómsveitir á borð við Pink Floyd, Marillion, Yes og Queen, í bland við nýrra efni.
Hugmyndin kviknaði hjá Sveini Ara Guðjónsyni, Sólnýju Pálsdóttur og syni þeirra Guðjóni eftir að þau fóru í tónlistarsiglingu í Karabíska hafinu á síðasta ári þar sem stór hópur tónlistarfólks víðsvegar að úr heiminum kom saman í þessum tilgangi. Undirbúningur fyrir þá tónleika fór fram í gegnum veraldar-vefinn og þegar á svið var komið voru flestir að sjást í fyrsta skipti. Fékk fjölskyldan þá hugmynd eftir ferðina byggja á svipaðri hugmyndafræði og safna saman tónlistarfóki til að halda uppi heiðri þessarar tónlistarstefnu.
Tónlistin er oft á tíðum krefjandi og óvenjuleg, en lögin voru valin með því markmiði að hver sem er sem hefur áhuga á tónlist geti haft gaman að. Flutt verða lög sem flestir þekkja í bland við nokkrar „faldar perlur". Lögin eru fjölbreytt og hópur flytjenda eftir því. Hljómsveitarstjóri er Guðjón Sveinsson. Þeir sem koma fram eru:
Söngur:
Bergur Ingólfsson
Bjarni Halldór Kristjánsson
Ellert Jóhannsson
Helgi Jónsson
Páll Jóhannesson
Sólný I. Pálsdóttir
Tómas Guðmundsson
Gítar:
Bjarni Halldór Kristjánsson
Guðjón Sveinsson
Hljómborð:
Gísli Þór Ingólfsson
Kristján Kristmannsson
Bassi:
Sveinn Ari Guðjónsson
Trommur:
Einar Merlin Cortez