Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

Grindvísk bók um glútenfrítt líf
Miðvikudagur 4. nóvember 2015 kl. 13:49

Grindvísk bók um glútenfrítt líf

- Kynnir bókina hjá Gallery Spuna á fimmtudag kl. 18:00

Þórunn Eva Guðbjargar Thapa sendi um síðustu helgi frá sér bókina Glútenfrítt líf. Bókin er fyrsta bók Þórunnar og er skrifuð til að hjálpa fólki sem greinst hefur með ofnæmi fyrir hveiti eða óþol fyrir glúteni. Þórunn Eva var greind með hveitiofnæmi fyrir sex árum og fann mikinn mun á heilsunni eftir að hafa tekið hveiti af matseðlinum. „Þetta var nýtt líf og ég hætti að finna til um leið og ég hætti að borða hveiti. Ég vaknaði hressari, var ekki eins þreytt, í betra skapi, liðverkir nánast hurfu, veikindi snarlega minnkuðu, bólur og kláði í húð minnkaði, bólgur í líkamanum hurfu, sem og verkir í kvið og þannig mætti lengi telja. Ég fór að njóta þess að vera til og upplifa að maður getur farið í gegnum daginn án þess að finna til, vera flökurt, illt í maganum og endalaust þreytt,“ segir hún.

Fyrst eftir að Þórunn Eva greindist með ofnæmi fyrir hveiti átti hún erfitt með að fikra sig áfram í því verkefni sem þá tók við. „Ég var lengi að finna út úr því hvernig ég ætlaði að taka allt hveiti út úr mínu lífi. Bókin er líka hentug fyrir aðstandendur. Mjög margir gleyma því að þegar einhver greinist með ofnæmi í fjölskyldunni að þá breytist allt saman. Mest auðvitað hjá þeim sem greinist en líka hinum en á annan hátt.“ Í bókinni er fræðslukafli, uppskriftir af ýmsum bakstri og upplýsingar um glútenfríar snyrtivörur.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

 

Grindavík er heimabærinn

Þórunn Eva flutti til Grindavíkur þegar hún var 16 ára gömul en hafði fram að því búið víða um heim. „Ég segi í dag að ég sé úr Grindavík því það er sá staður sem ég hef hvað lengst búið á samfleytt. Eldri drengurinn minn á líka mjög stóra fjölskyldu þar og mamma mín og stjúpi búa þar.“ Þórunn býr nú í Hafnarfirði með manninum sínum og tveimur sonum. Hún fékk nýlega fasta vinnu hjá Bílaumboðinu Öskju en hefur í nokkur ár starfað á bílasýningum fyrirtækisins. „Ég á langveikan dreng og hef verið að sinna því hlutverki síðan hann fæddist árið 2004. Ég elska það að vera útivinnandi. Það er nauðsynlegt fyrir alla að hafa eitthvað fyrir stafni á daginn.“ 

Í bókinni eru uppskriftir að vöfflum, pönnukökum, hjónabandssælu, ís, hamborgarabrauði, pylsubrauði, pasta og mörgu fleiru. Þórunn segir það hafa verið vandasamt verk að ákveða hvaða uppskriftir ættu að fara í bókina. „Mig langaði að setja svo mikið í bókina en ákvað á endanum að setja inn þær uppskriftir sem ég nota hvað mest. Mínar uppáhalds sem ég saknaði eftir að ég tók út hveitið. Það er erfitt að baka gott bakkelsi og hafa það glútenfrítt en mér hefur tekist að gera allt í þessari bók mjög vel og mjög gott.“ Þórunn Eva kveðst hafa fengið góða hjálp við bókarskrifin. Hún tók nokkur viðtöl fyrir fræðslukafla bókarinnar og fékk góð viðbrögð þeirra sem hún leitaði til.

Erfitt að velja úr uppskriftum

Það er töluvert umstang í kringum það að skrifa heila matreiðslubók og skipulagði Þórunn Eva tímann þannig að bakkelsið nýttist sem best á heimilinu. „Þegar okkur langaði að hafa hamborgarapartý þá gerði ég hamborgarana í bókina þann daginn. Svo þegar við vorum með afmæli bakaði ég helling fyrir það til að geta svo notað sem efni í bókina. Þannig reyndi ég alltaf að baka svo aðrir fengju líka að njóta þess í hvert skipti.“

Bókin er myndum prýdd og tók Þórunn Eva þær flestar. Hún segir það hafa verið erfitt á köflum enda hafi hún ekki fengist við slíkt áður. „Ólína Kristín Margeirsdóttir tók líka nokkrar myndanna. Hún er einmitt föðursystir drengsins míns og er Grindvíkingur, búsett í Mosó. Tamara hjá Tamara Photography tók svo myndirnar af mér fyrir bókina en hún er einnig úr Grindavík og búsett í Hafnarfirði eins og ég. Þetta er því mjög grindvísk bók. Móðursystir mín er grafískur hönnuður og setti bókina upp fyrir mig og hún er sú eina sem kom að bókinni sem er ekki úr Grindavík. Ég er því mjög heppin með fólkið í kringum bókina. Ég hefði aldrei getað haft myndirnar svona flottar nema fyrir allar þessar flottu píur.“

Þórunn Eva kynnir bókina í Gallery Spuna í Grindavík á morgun, fimmtudaginn 5. nóvember, frá klukkan 18:00 til 22:30.