Grindvíkingar að tapa sér í skreytingum
Skreytingaæði hefur gripið Grindvíkinga en sjómanna- og fjölskylduhátíðin Sjóarinn síkáti fer fram um helgina.
Grindavíkurbæ er skipt upp í fjögur litahverfi á Sjóaranum síkáta: Appelsínugula hverfið, Bláa hverfið, Græna hverfið og Rauða hverfið.
Þetta var gert í fyrsta skipti í fyrra og tókst frábærlega vel. Í vikunni hafa bæjarbúar verið að skreyta bæinn sem um munar og er alveg ótrúlegt að sjá hugmyndaflugið og eljuna sem fólk hefur lagt í þessar skreytingar. Meira að segja er búið að mála bíla í litum hverfanna!
Veitt verða verðlaun fyrir best skreytta húsið, frumlegustu skreytinguna, best skreyttu götuna, best skreytta fyrirtækið og svo best skreytta hverfið.
Á morgun, föstudag, verður svo grillað um allan bæ kl. 18 og svo fer hvert hverfi í skrúðgöngu kl. 20 sem sameinast í eina stóra á Ránargötunni þaðan sem haldið er niður á bryggju á Bryggjuballið með Ingó og Veðurguðunum.
Það er frábær stemmning í bænum og sannarlega hugur í Grindvíkingum að gera þetta að skemmtilegri helgi, segir í tilkynningu frá Grindavíkurbæ.