Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Grindavíkurdætur syngja lög eftir Kristínu Matthíasdóttur
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
föstudaginn 10. mars 2023 kl. 07:20

Grindavíkurdætur syngja lög eftir Kristínu Matthíasdóttur

„Við munum flytja þessi nýju lög Kristínar, við höfum mikla trú á þeim og ekki síst textunum,“ segir Berta Dröfn Ómarsdóttir, kórstjóri kvennakórsins Grindavíkurdætra en þær halda tónleika í Grindavíkurkirkju og syngja frumsamin lög eftir Kristínu Matthíasdóttur 12. mars.  

Kvennakórinn Grindavíkurdætur, var stofnaður í árslok 2018 af þeim Bertu Dröfn Ómarsdóttur, Sigurlaugu Pétursdóttur og Rósu Ragnarsdóttur, Berta er kórstjórinn. Kórinn var ekki búinn að vera lengi starfandi þegar COVID skall á og eðlilega var ekki mikið hægt að koma fram en andinn í kringum starfið hefur verið það góður að kórinn hélt velli í gegnum heimsfaraldurinn. Hingað til hefur hann flutt þekkt lög en kona að nafni Kristín Matthíasdóttir frá Grindavík, gaf sig á tal við Bertu Dröfn og spurði hvort hún mætti semja lög og texta sem Grindavíkurdætur myndu svo flytja. Þetta kom Bertu talsvert á óvart þar sem Kristín hafði ekki verið þekkt fyrir sína tónlistarsköpun en hún ákvað að hlusta á það sem Kristín hafði samið og hingað eru þær komnar. Berta segir að það hafi verið öðruvísi að æfa upp frumsamin lög en gengið vel og dætur Grindavíkur tilbúnar fyrir tónleikana.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Kórinn byrjaði að æfa lögin á fullum krafti í september og hafa æfingar gengið vel. Við höfum hingað til flutt þekkta slagara, inn á milli tekið eitthvað lag sem var heitt á þeim tímapunkti, eins og lagið sem hafði unnið Eurovision. Svo það var öðruvísi að fara æfa ný og óþekkt lög en þetta hefur gengið betur en ég þorði að vona fyrirfram. Þessi lög hennar Kristínar eru svo melódísk með flottum laglínum, mjög aðgengilegt. Kórinn er kominn í ótrúlega góða æfingu, við höfum gert ótal hluti og því er reynslan til staðar, þess vegna gekk m.a. svona vel að æfa upp þessi nýju lög.“

Miðasalan fyrir tónleikana fer fram á Tix.is og hefur gengið vel segir Berta. „Við ákváðum að hafa miðasöluna á Tix og hún fór strax vel af stað og ég hef mikla trú á það verði uppselt. Grindavíkurkirkja tekur 240 manns í sæti svo ég hvet alla til að tryggja sér miða sem fyrst. Við munum bara flytja þessi nýju lög Kristínar, við höfum mikla trú á þessum lögum hennar og ekki síst textum. Hún semur um lífið og tilveruna vítt og breytt, mikil jákvæðni en kemur líka inn á sorg og missi og eins og ég segi, ofboðslega fallegt hjá henni. Boðskapurinn er mjög fallegur, hann talar í raun til okkar allra. Við Grindavíkurdætur hlökkum mikið til að halda þessa tónleika,“ sagði Berta Dröfn að lokum.

Tónskálið Kristín Matthíasdóttir
Ingunn Hildur Hauksdóttir, meðleikari
Berta Dröfn Ómarsdóttir, kórstjóri