Grindavíkurdætur fylltu Grindavíkurkirkju
Það var þétt setinn bekkurinn í Grindavíkurkirkju á sunnudagskvöld en þá hélt kvennakórinn Grindavíkurdætur tónleika með lögum eftir laga- og textahöfundinn Kristínu Matthíasdóttur. Áður hefur verið minnst á Kristínu en hún er ein þeirra sem líklega bindur ekki baggana sína sömu hnútum og samferðarfólkið, hún hafði aldrei verið við tónlist tengd á nokkurn hátt þar til eitthvað gerðist fyrir u.þ.b. tveimur árum og allt í einu semur hún lög og texta eins og enginn sé morgundagurinn.
Tónleikarnir voru frábærlega heppnaðir og lögin hvert öðru betra. Í tveimur laganna stigu meðlimir kórsins fram sem einsöngvarar, annars vegar Helga Fríður Garðarsdóttir og Heiða Dís Bjarnadóttir og hins vegar Hrefna Bettý Valsdóttir. Meðleikararnir, Ingunn Hildur Hauksdóttir á píanó og Þröstur Þorbjörnsson á bassa og slagverk, léku listavel og kórinn söng óaðfinnanlega undir öruggri stjórn kórstjórans, Bertu Drafnar Ómarsdóttur.
Mjög góður rómur var gerður að frammistöðunni í lok tónleikanna þar sem gestir stóðu upp og klöppuðu vel og lengi. Gaman og spennandi verður að sjá hvað þessi frábæri kór gerir næst.
Takk fyrir mig!
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson.