Grindavík vann tvöfalt í Stóru upplestrarkeppninni
Grunnskóli Grindavíkur gerði sér lítið fyrir og vann tvöfalt í Stóru upplestrarkeppninni en lokahátíðin fór fram í Gerðaskóla í Garði í fyrradag en keppnin er fyrir nemendur í 7. bekk. Margrét Rut Reynisdóttir varð í 1. sæti og Valgerður María Þorsteinsdóttir í 2. sæti en báðar eru þær nemendur í 7. S í grunnskóla Grindavíkur.
Undankeppni Stór upplestrarkeppninnar í grunnskólanum fór fram 11. mars. Fjórir nemendur voru valdir áfram í úrslitin sem grunnskóli Grindavíkur, Vogaskóli og Gerðaskóli halda í sameiningu. Lesnir voru kaflar úr bók og svo tvö ljóð. Grindvísku keppendurnir stóðu sig allir mjög vel líkt og aðrir keppendur og því var dómnefndinni nokkur vandi á höndum en Grindavík stóð uppi sem tvöfaldur sigurvegari.
Það eru Raddir, samtök um vandaðan upplestur og framsögn sem stendur fyrir Stóru Upplestrarkeppninni. Markmið upplestrarkeppni í 7. bekk grunnskóla er að vekja athygli og áhuga í skólum á vönduðum upplestri og framburði.