Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Grindavík og Ílhavo undirrita vinabæjar
Laugardagur 27. ágúst 2005 kl. 12:35

Grindavík og Ílhavo undirrita vinabæjar

Um þessar mundir er bæjarstjóri Grindavíkur Ólafur Örn Ólafsson ásamt konu sinni staddur í bænum Ílhavo í Portúgal. Þau héldu utan í vikubyrjun og er tilgangur ferðarinnar að undirrita og staðfesta samkomulag um vinabæjartengsl milli Grindavíkur og Ílhavo. Upphaf samskipta Grindavíkurbæjar og Ílhavo má rekja til heimsóknar bæjarstjóra Ílhavo, Jose A. Ribau og íslenska konsúlsins í Portúgal ásamt gestum í Saltfisksetrið sl. vetur. Í kjölfar þeirrar heimsóknar leitaði bæjarstjóri Ílhavo eftir vinarbæjartenslum við Grindavíkurbæ. Í fyrradag, fimmtudag, var skrifað undir vinabæjarsamninginn í stórum gömlum fiskibát sem nýlokið er við að gera upp. 

Íbúafjöldi Ílhavo er u.þ.b. 40 þúsund manns og og er landrýmið  75 ha. lands. Ílhavo samanstendur af þremur byggðakjörnum, árósasvæði, miðsvæði og ca 4 km. strandsvæði sem að mestu eru baðstrendur. Mikil uppbygging hefur átt sér í Ílhavo undanfarin fimm ár og myndarlega staðið að málum. Nýbúið er að byggja þar mikið menningarsetur og einnig stórt og myndarlegt "Saltfisksetur" eða sjávarútvegssafn sem þykir með glæsilegri byggingum sinnar tegundar. Í Ílhavo er eitt sterkasta körfuknattleikslið í Portúgal og ekki ólíklegt að Grindavík mæti þeim í leik, einnig eru nokkur knattspyrnulið í ýmsum deildum og hefð er fyrir siglingaíþróttum. 

Í Ílhavo eru höfuðstöðvar saltfiskinnflytjenda í Portúgal. Þar eru samtök framleiðenda ásamt öllum stærstu fyrirtækjum landsins í dreifingu og pökkun á saltfiski. Stakkavík h/f  nýtur virðingar í Ílhavo, fyrirtækið er þekkt fyrir hágæða framleiðslu og notað sem viðmið um gæði saltfisks á svæðinu. 

Auk Ólafs Arnar og konu hans eru m.a. Gunnar I Birgisson, bæjarstjóri Kópavogsbæjar, Hannes Sigurðsson frá Þorlákshöfn og Stefán Ingólfsson frá Basra, sem taka nú þátt í 5 daga "Þorskhátíð" sem hófst með mikilli saltfiskveislu á miðvikukdagskvöld, kl 18:00. Á götum bæjarins eru tjöld og veisluborð og dynjandi músik öll kvöld. Hátíðinni lýkur sunnudaginn 28 ágúst. 

Fyrir liggur þegar á næsta ári að mynda samvinnu með saltfiskdaga í tengslum við sjómanna- og fjölskylduhátíðina "Sjóarann Síkáta".

Af vef Grindavíkurbæjar

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024