Grindavík keppir í 8-liða úrslitum Útsvars í kvöld

Grindavík mætir Skagafirði í spurningarleiknum vinsæla Útsvari í kvöld kl. 20:10. Búist er við hörku viðureign enda komið fram í 8 liða úrslit en Grindavík hefur aldrei komist svo langt í þessari keppni. Grindavíkurliðið hefur æft stíft í þessari viku enda ætlar liðið sér að komast áfram í undanúrslit. Viðureignin er að sjálfsögðu sýnd beint á Ríkissjónvarpinu.
Grindavíkurliðið er skipað þeim Daníel Pálmasyni, Agnari Steinarssyni og Margréti Pálsdóttur. Í lok þáttar munu þau færa andstæðingum sínum saltfisk frá Þorbirni að gjöf og aðgöngumiða á saltfiskssýninguna og Jarðorkusýninguna í Kvikunni, auðlinda- og menningarhúsi Grindvíkinga.


 
	
			


 
						 
						 
						 
						 
						 
						


 
				 
				 
				 
				 
				
 
				 
				 
				