Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Þriðjudagur 19. febrúar 2002 kl. 14:32

Grettir að lifna við

Leikfélag Keflavíkur og Vox Arena, leiklistarklúbbur Fjölbrautaskólans hafa sitt í hvoru lagi staðið fyrir öflugri leiklistarstarfsemi í Reykjanesbæ undanfarin ár. Nú liggja leiðir þessara félaga saman í uppfærslu á söngleiknum Gretti. Leikfélag Keflavíkur setti þennan sama söngleik á svið fyrir 13 árum við stormandi lukku Suðurnesjamanna.Það er allt á fullu í Frumleikhúsinu þessa dagana, enda styttist óðum í frumsýningu sem fyrirhuguð er föstudaginn þann 8.mars. Í sýningunni taka þátt um fjörutíu manns, allt ungt og efnilegt fólk á aldrinum 16-26 ára af öllum Suðurnesjum, flest þeirra hafa áður tekið þátt í sýningum LK eða Vox Arena.

Í söngleiknum er heilmikill tónlistarflutningur, tónlistin er útsett og endurhljóðblönduð af Júlíusi Frey en hann,ásamt Sigurði Guðmundssyni, sér um hljóðfæraleikinn. Leikhópurinn hefur á að skipa fullt af góðum söngvurum og leikurum. Það eru allmargir nemendur FS sem koma að sýningunni á einn eða annan hátt. Má þar nefna trésmíðadeild skólans en nemendur þar hafa ásamt kennurum sínum smíðað leikmyndina. Málmiðnaðardeild skólans hefur einnig komið nálægt sviðsvinnunni. Margar hendur vinna létt verk. Nemendur úr fatahönnun sjá um búninga, nemendur í fjölmiðlaáfanga sjá um að hanna leikskrána, nemendur myndmenntadeildar fengu það verkefni að hanna logo sýningarinnar, nokkrir nemendur hársnyrtibrautar munu sjá um hárgreiðslu og förðun, svo eitthvað sé nefnt. Þetta samstarfsverkefni kemur mjög skemmtilega út og hagnast nemendur skólans á þessari leikhúsvinnu því þeir fá eina einingu í óbundið val fyrir öfluga þátttöku.

Gífurlegur leiklistaráhugi er á meðal ungs fólks hér á svæðinu enda getum við Suðurnesjamenn státað af mörgum ungum leikurum sem einmitt hafa stigið sín fyrstu skref í LK og Vox Arena. Miðað við lætin í Frumleikhúsinu er óhætt að lofa Suðurnesjabúum spennandi söngleik í marsmánuði.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024