Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Grétar Ólason sló grasblett sem bærinn hefur áður séð um
Hér sést umhverfis hús Grétars eftir sláttinn og tiltektina.
Þriðjudagur 4. ágúst 2015 kl. 09:47

Grétar Ólason sló grasblett sem bærinn hefur áður séð um

-Hvetur bæjarbúa til að gera slíkt hið sama

Grétar Ólason íbúi í Reykjanesbæ og eigandi jólahússins glæsilega að Týsvöllum, tók sig til og sló grasblett fyrir utan hús sitt um helgina sem að öllu jöfnu er hlutverk bæjarfélagsins að gera. Grétar sagði í samtali við Víkurfréttir að þetta hafi alls ekki tekið hann langan tíma og að hann vilji hvetja bæjarbúa til að gera slíkt hið sama. „Ég veit vel að það eru litlir peningar til í bæjarsjóði og því hefur þessu lítið verið sinnt í sumar og ég hef fullan skilning á því. Þetta er alls ekki hugsað sem einhver gagnrýni á bæjaryfirvöld heldur miklu frekar ákall til bæjarbúa um að allir hjálpist að við að fegra sitt nánasta umhverfi.“ 

Grétar sagði að hann væri ekki að tala um að fólk ætti að slá heilu grasflatirnar, bara rétt það sem væri í námunda við hús þeirra. Grétar fékk hugmyndina að þessu þegar hjón í bænum gerðu svipaðan hlut og birtu á Facebooksíðunni „Reykjanesbær - Gerum góðan bæ betri.“ „Mér finnst alveg sjálfsagt að fólk taki sig saman og hjálpi til. Ég sló grasblett fyrir utan húsið mitt og snyrti og gerði það sama fyrir utan hús nágranna míns, hans Sigga Garðars og sagði svo við hann að hann ætti að gera þetta næst! “

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Það er kominn tími til að reka burtu neikvæðnina og láta jákvæðnina ríkja í sumarblíðunni. Það væri gaman ef fólk gæti skorað á hvort annað þannig að svona bylgja myndi myndast eins og gerðist þegar „Ice Bucket“ áskorunin tröllreið hér öllu. Svo má það líka alveg koma fram að hann Axel Jónsson í Skólamat er búinn að vera að gera þetta í allt sumar í kringum sitt hús,“ sagði Grétar.

Grétar sagði að þetta hefði ekki tekið hann langan tíma og hann vildi endilega hvetja bæjarbúa til að fylgja fordæmi sínu og snyrta sitt nánasta umhverfi.

Hér að neðan eru nokkrar „fyrir og eftir“ myndir sem Grétar tók í kringum hús sitt að Týsvöllum. Eins og sjá má er mun fallegra og snyrtilegra í kringum húsið eftir slátt og tiltekt Grétars.

Grétar Ólason hinn dugmikli sláttumaður