Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Gott skólaumhverfi hefur gríðarleg áhrif á líðan og árangur í námi
Fulltrúar Lindar búnir að taka á móti Hvatningarverðlaunum menntaráðs, með þeim er Sighvatur Jónsson. VF/JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
sunnudaginn 9. júní 2024 kl. 08:28

Gott skólaumhverfi hefur gríðarleg áhrif á líðan og árangur í námi

Lind er annað tveggja verkefna sem voru veitt hvatningarverðlaun Reykjanesbæjar við hátíðlega athöfn í Duus húsum í síðustu viku. Deildin var formlega vígð í nóvember síðastliðnum en Lind er námsúrræði fyrir börn með einhverfu og hefur verið starfandi í þrjú ár innan veggja Akurskóla. Á þessum tíma hefur deildin vaxið úr því að hafa tvo nemendur í kennslu en þeir verða orðnir tíu á næsta skólaári.

„Við erum ótrúlega ánægð að fá þessa viðurkenningu frá Reykjanesbæ. Hún er eitthvað sem við ætlum klárlega að byggja ofan á,“ segir Arnar Smárason, deildarstjóri Lindar, í samtali við Víkurfréttir. „Lind hefur náttúrulega vaxið og dafnað fyrstu árin og við verðum með fulla deild, tíu nemendur, á næsta skólaári. Þetta fer hratt en engu að síður vel af stað og við erum ótrúlega ánægð hvernig þetta hefur gengið.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Lind er sértækt námsúrræði, eruð þið eingöngu með börn á einhverfurófi?

„Þetta er námsúrræði í Reykjanesbæ fyrir börn með einhverfu og nemendur hafa sýnt miklar framfarir í námi og hegðun. Þeim líður greinilega vel hjá okkur og ég held að það sanni best hvernig gott skólaumhverfi, sem er hannað að þörfum hvers og eins, getur haft gríðarleg áhrif á líðan og árangur í námi.“

Eru krakkarnir að blandast öðrum nemendum í tímum eða eru þeir alfarið inni á deild hjá ykkur?

„Langflestir nemenda okkar sinna sínu námi inni í bekk, í bland við það að vera í tímum með þroskaþjálfa, iðjuþjálfa og sérkennara inni í Lind. Þannig að við reynum að halda tengingu við bekkinn eins mikið og möguleiki er á.“

Og aðrir nemendur taka góðan þátt og eru umburðarlyndir.

„Já, alveg hundrað prósent og við erum mjög ánægð með hvernig þau taka okkar nemendum. Af því að við erum með börn alls staðar af í Reykjanesbæ, þetta eru ekki bara börn úr skólahverfinu. Það er alveg frábært hvernig þau taka á móti nýjum nemendum sem koma inn í þeirra bekk.“

Á hvaða aldri eru þessir nemendur?

„Núna erum við með nemendur frá þriðja bekk og upp í tíunda bekk en þegar deildin verður fullmönnuð í haust verðum við með nemendur frá fyrsta bekk og upp í þann tíunda.“

Arnar samsinnir því að Lind er gríðarlega flott verkefni og vel að hvatningarverðlaunum komið. „Og mannauðurinn sem við höfum hér í Lindinni er gríðarlega flottur og við erum ótrúlega stolt af okkar fólki, bæði fagfólki og stuðningsfulltrúum. Hér er einn þroskaþjálfi, við erum með iðjuþjálfa, tvo sérkennara, fimm stuðningsfulltrúa og ég er deildarstjóri. Svo hafa kennarar á unglingastigi verið að koma inn og kenna unglingunum mínum íslensku, stærðfræði, náttúrufræði og samfélagsfræði.“

Þið ætlið væntanlega að halda áfram á ykkar braut.

„Já, við erum spennt fyrir framhaldinu. Við verðum fullmönnuð á næsta ári og erum spennt fyrir þeirri áskorun,“ sagði Arnar að lokum.