Gott og öflugt skólasamfélag í Reykjanesbæ
Nemendur í Reykjanesbæ hafa náð góðum árangri á samræmdum könnunarprófum síðustu ár. Ein af ástæðunum fyrir þessu er breytt verklag sem var tekið upp í sveitarfélaginu. Gyða Margrét Arnmundsdóttir er einn af höfundum þessa breytta verklags og framtíðarsýnar Reykjanesbæjar í menntamálum. Hún lýkur nú störfum hjá Reykjanesbæ eftir langan og farsælan starfsaldur. Hún hefur komið víða við í fræðslumálum í Reykjanesbæ og fékk nýlega tilnefningu til Hvatningarverðlauna fræðsluráðs fyrir að hafa komið að stofnun Asparinnar, sem er sérúrræði fyrir nemendur með fötlun í Njarðvíkurskóla.
Heimili á Akureyri og í Svíþjóð
Gyða er gift Viðari Má fyrrverandi sviðstjóra umhverfissviðs Reykjanesbæjar en hann er kominn á eftirlaun. Þau eiga tvær dætur, en önnur býr á Akureyri og hin í Svíþjóð. „Ég á fjögur barnabörn, tvö á hvorum stað. Það er ástæðan fyrir því sem er að gerast næst hjá okkur. Það er að selja hér og kaupa húsnæði á Akureyri og fyrir eigum við húsnæði í Svíþjóð. Við ætlum að skipta okkur á milli þessara tveggja staða. Maðurinn minn er frá Akureyri og við ætlum að vera hálft ár á hvorum stað. Við ætlum að vera yfir sumarmánuðina í Svíþjóð en vetrarmánuðina á Akureyri. Þetta er ástæðan fyrir því að við erum að flytja héðan.“
Kenndi Heimi Hallgrímssyni landsliðsþjálfara
Gyða er Vestmannaeyingur, fædd og uppalin í Vestmannaeyjum. Hún byrjaði að kenna þar eftir gosið í Eyjum. „Ég kenndi meira að segja Heimi Hallgrímssyni, landsliðsþjálfara. Þess vegna er hann svona flottur í dag,“ segir Gyða í léttum tón. Það var í Vestmannaeyjum sem afskipti Gyðu af sérkennslu hófust en hún kenndi í athvarfi sem var þar ásamt almennri kennslu. Þegar hún var 31 árs flutti fjölskyldan á Vestfirðina, á Suðureyri við Súgandafjörð og þar starfaði Gyða í fjögur ár við kennslu. Þaðan lá leiðin til Svíþjóðar þar sem hún var í tíu ár. „Ég er menntaður grunnskólakennari og áhugi minn hefur ávallt beinst að sérkennslumálum. Ég hef alveg frá upphafi komið að sérkennslumálum þó ég hafi kennt á öllum stigum í grunnskóla. Þegar ég flyt til Svíþjóðar fer ég að kenna móðurmálskennslu og hælisleitendum. Ég kenndi einnig sérkennslu í Svíþjóð og svo tók ég námskeið í kennslu innflytjenda og sérkennslufræðum. Ég kenndi svo líka sérkennslu og almenna kennslu þar.“
Stofnaði Öspina
Ástæðan fyrir því að Gyða flutti til Reykjanesbæjar var sú að Viðar maðurinn hennar fékk vinnu hjá sveitarfélaginu. Fyrsta heimili þeirra á Suðurnesjum var í Höfnum þar sem þau bjuggu í nokkra mánuði áður en þau flyttu í núverandi húsnæði þeirra í Innri-Njarðvík. „Þegar við flytjum hingað byrja ég að sjá um leikfangasafnið í Ragnarsseli hjá Þorskahjálp á Suðurnesjum. Ég tók við formennsku í leikfangasafninu og er jafnframt deildarstjóri í dagvistinni. Á Ragnarsseli var starfrækt dagvist fyrir fötluð börn. Það er svo árið 1999 sem ég fer til starfa i Njarðvíkurskóla sem sérkennari. Ég er líka í sérkennslunámi við Kennaraháskóla Íslands á þessum tíma.“ Gyða stofnaði Öspina árið 2002 ásamt þáverandi sérkennslufulltrúa. Öspin er sérúrræði fyrir nemendur með fötlun og langveik börn. Hún er hluti af Njarðvíkurskóla og nemendur eru tengdir almennum bekkjum. Þau erum með aðstöðu í Öspinni og eru með sérkennslu þar. Gyða fékk Hvatningarverðlaun núna nýlega fyrir að koma að stofnun Asparinnar. Þörfin fyrir úrræði fyrir nemendur með fötlun hér í sveitarfélaginu var mikil. Áður var þessum nemendum ekið í Öskjuhlíðarskóla þar sem þau fengu kennslu við hæfi. „Við ákváðum að það væri kominn tími til að bjóða upp á úrræði fyrir þessa nemendur hér í sveitarfélaginu. Á þessum tíma var komin umræða um skóla án aðgreiningar og verið var að leggja niður sérdeildir í grunnskólum. Nemendur þurfa bæði að fá að vera með jafnöldrum sínum og líka að fá nám við sitt hæfi. Við verðum alltaf að hafa einhver öðruvísi úrræði og Öspin er slíkt sérúrræði. Þetta verkefni hefur heppnast mjög vel og hefur ávallt verið gott fólk sem starfar þarna. Þau sem tóku við boltanum af mér hafa unnið frábært starf og fengið ráðgjöf frá fræðslusviði Reykjanesbæjar.
Finna lausn sem virkar fyrir hvern og einn
„Við erum með fleiri deildir fyrir nemendur með fatlanir og börn með hegðunarerfiðleika. Eftir að ég tók við starfi deildarstjóra hér hefur það verið hluti af starfi mínu að vera tengiliður við þessar deildir. Ég fylgi málum eftir og er með ráðgjöf í þessum deildum. Hegðunardeildir eru Björk og Goðheimar og Eikin er einhverfudeild í Holtaskóla. Nýlega fór af stað verkefni sem fer fram í 88 húsinu sem ég kom að. Þetta er úrræði fyrir drengi með einhver frávik í eldri bekkjum grunnskóla eftir að venjulegum skóladegi lýkur. Í vetur voru sex drengir sem tóku þátt í þessu en það er biðlisti. Það vantar fleiri starfsmenn til að getað boðið fleirum upp á að taka þátt í þessu. Þessir drengir áttu ekki samleið með yngri börnunum og því er betra fyrir þá að vera í félagsmiðstöð eins og aðrir unglingar. Við höfum alltaf reynt að finna lausn sem virkar fyrir hvern og einn. Ég vil sjá þetta verða stærra og meira og þróa þetta úrræði í samvinnu við frístundaskólann.“
„Logos greiningar- og skimunartækið“
„Árið 2006 fórum við, fjórir sérkennarar, til Svíþjóðar á ráðstefnu og sáum greiningartæki sem heitir Logos en það er lestrargreiningarforrit sem er víða notað. Ég varð mjög spennt fyrir því og við fórum í samningaviðræður við eigendur. Í framhaldinu réðumst við í það að kaupa þetta greiningartæki. Það þurfti að þýða og staðhæfa það á íslensku sem var ótrúlega mikil vinna. Við höfðum sennilega ekki farið út í þetta ef við hefðum áttað okkur á því hvað þetta var mikil vinna. En þetta var mjög lærdómsríkt því við lærðum mikið um lestur, lesblindu og allt í kring um það. Við fórum á námskeið í Noregi og Svíþjóð. Við erum þrír sérkennarar á Suðurnesjum og einn í Kópavogi á bak við Logos á Íslandi. Þetta tæki er notað í yfir 90% allra grunnskóla landsins. Við erum búin að halda óteljandi námskeið um allt land.“
Aukin áhersla á læsi
Það var árið 2011 sem Framtíðarsýn Reykjanesbæjar, Garðs og Sandgerðis kom fram. Með henni var verklagi breytt og sett var aukin áhersla á læsi. Þessar áherslur voru settar í gang í öllum grunnskólum Reykjanesbæjar og í Sandgerði og Garði. „Við fengum viðurkenningu í opinberri stjórnsýslu fyrir framtíðarsýnina. Þetta byrjaði þannig að ég og þáverandi fræðslustjóri, Gylfi Jón Gylfason, áttum fund með öllum skólastjórum í leik- og grunnskólum og það var gerð viljayfirlýsing um bættan námsárangur á svæðinu og eflingu læsis og stærðfræði í leikskólum. Þetta var vegna þess að við vorum að koma afskaplega illa út úr samræmdum könnunarprófum. Við vorum ekki tilbúin að sætta okkur við að nemendur okkar væru eitthvað heimskari heldur en aðrir. Við vildum fá að skoða málin og voru allir tilbúnir að leggjast á eitt að skoða það. Partur af þessari framtíðarsýn voru þessar föstu skimanir á læsisgetu nemenda. Úrvinnslan fór fram hér á fræðsluskrifstofunni og síðan skil í skólana til kennara og foreldra. Þá fór fram eftirfylgd í formi aðgerðaráætlunar. Þessi samvinna allra aðila, frábærra kennara, skólastjórnenda og foreldra skilaði strax góðum árangri. Sveitarfélagið kom inn í þetta með miklum stuðningi. Þetta var aðallega nýtt verklag og verkferlar en ekki aukið fjármagn. Það var mikill áhugi hjá fræðslu- og bæjaryfirvöldum að fylgja þessu eftir, sérstaklega fræðsluráðs og bæjarstjóra. Árni Sigfússon var bæjarstjóri þegar þetta fór í gang og var hann mjög áhugasamur um þetta verkefni. Þetta var ekki bara átak sem hætti, við erum enn að vinna eftir þessum verkferlum. Við kynntum þetta um allt land og margir sem sýndu þessari vinnu okkar áhuga. Það voru mörg sveitarfélög sem tóku þetta upp og gerðu að sínu. Þar má nefna Hafnarfjörð, Árborg, Hornafjörð og Vestmannaeyjar. Sveitarfélögin fengu kynningu og aðstoð við að fylgja þessu eftir. Þetta var mikil vinna en gaman og frábært að fá að taka þátt í þessu.“
Tekur síðasta kaflann í lífinu öðruvísi
„Fyrir tveimur árum greindist ég með krabbamein og var frá vinnu í tíu mánuði. Þessi veikindi urðu til þess að við hjónin ákváðum að hugsa málin upp á nýtt, hætta að vinna og taka síðasta kaflann í lífinu öðruvísi. Maður er þakklátur fyrir það að koma hraustur til baka úr svona veikindum og langar til að geta átt nokkur góð ár með fjölskyldunni. Ég vil ekki eyða restinni af ævinni í þetta álag sem er búið að vera síðustu ár. Það er búið að vera mikið álag í vinnunni en alltaf gaman. Ég er laus við við krabbameinið og er bara í eftirliti þessa dagana, mæti í myndatöku tvisvar á ári í fimm ár. Nú er maður búin með starfsaldurinn. Stóru verkefnin mín frá því ég kom til Reykjanesbæjar eru sérdeildirnar í bænum, framtíðarsýnin og Logos.“
Keyptu þér sígvél og farðu að rækta garðinn þinn
„Ég er að ljúka störfum og er að fara út til Svíþjóðar. Ég er búin að pakka niður búslóðinni og koma henni í geymslu. Ég er að leita mér að húsnæði á Akureyri. Hugmyndin er að koma aftur frá Svíþjóð í september og koma mér fyrir á Akureyri. Í Svíþjóð ætla ég að fá mér gróðurhús og rækta garðinn minn. Krabbameinslæknirinn minn sagði við mig: Kauptu þér stígvél og farðu að rækta garðinn þinn.“ Ég ætla að hugsa um barnabörnin og efla þau í læsi. Allavega á meðan þau nenna að vera með ömmu og afa,“ segir Gyða að lokum.
Fjórða hvert barn á leikskóla af erlendum uppruna
„Það eru stór verkefni framundan, sérstaklega vegna fjölgunar íbúa hér í sveitarfélaginu. Þetta kallar á mikla uppbyggingu í skólamálum. Nemendum af erlendum uppruna hefur fjölgað mikið hér í Reykjanesbæ. Nú er að verða um einn fjórði af leikskólabörnum hér af erlendum uppruna og hátt í það af grunnskólabörnum. Það er mikið verkefni að styðja við kennara, foreldra og nemendur. Síðan er öll þessi fjölgun upp á Ásbrú. Maður veit ekki hvernig þróunin verður þar, hvort það verði mikið af barnafólki eða ekki. Við gætum þurft að byggja þjónustu þar hratt upp fyrir þessa nemendur, því þar gæti þeim fjölgað um helming. Svo er stór uppbygging í kringum nýja skólann í Innri-Njarðvík. Það verður að halda vel á spöðunum næstu árin. Það er mikið af stórum verkefnum framundan næstu árin og skemmtileg vinna fyrir þá sem taka við.“