„Gott fyrir alla að vita við hverju má búast“
Suðurnesjamönnum boðið á ókeypis fyrirlestur.
„Við erum að bjóða Suðurnesjabúum á fyrirlestur um stjúptengsl og helstu áskoranir í stjúpfjölskyldum. Það sem ég vil koma áleiðis er að hver og einn haldi ekki bara að hann sé einn að glíma við það sem er svo algengt,“ segir Valgerður Halldórsdóttir, félagsráðgjafi og stofnandi Félags stjúpfjölskyldna, Stjúptengsl. Fyrirlesturinn heitir Sterkari stjúpfjölskyldur og er styrktur af velferðarráðuneytinu og er hluti af fjölskyldustefnu sem ráðuneytið vinnur að.
„Allir eru velkomnir og ef einhver vill skrá sig í félagið þá er það velkomið. Við erum að byggja félagið upp og verðum með fyrirlestra í vetur og eftir áramót. Einnig er ókeypis símaráðgjöf fyrir alla í síma 588 0850, milli 16-18 á miðvikudögum. Félagsmenn geta pantað símaráðgjöf á öðrum tíma,“ segir Valgerður.
Almenn vitundarvakning
Valgerður segir að í raun sé gott fyrir alla að vita við hverju megi að búast svona almennt í svona málum. „Það er alveg hægt að takast á við hlutina. Oft vita stjúpafinn og stjúpamman ekkert út á hvað þetta snýst og þau eru velkomin líka. Einnig ef börn eiga vini sem eru í stjúpfjölskyldum og langar að vita hvernig þetta er og hverju má búast við. Þetta er svona almenn vitundarvakning um hvað ber að hafa í huga sem foreldri og alveg eins hvað ber að hafa í huga í stjúpfjölskyldum,“ segir Valgerður sem hlakkar til að sjá og heyra í Suðurnesjafólki.
Fyrirlesturinn verður í Hljómahöll 22. september og hefst kl. 17:15.