Gott að vaska upp með hljóðbók í eyrunum
-Einar Valur Árnason kennari við FS er lesandi vikunnar í Bókasafni Reykjanesbæjar
Hvaða bók ertu að lesa núna?
Þessa stundina er ég að lesa Með lífið að veði eftir Yeonmi Park. Þetta er átakanleg samtíma saga norður kóreskrar stúlku sem flúði Norður-Kóreu yfir til Kína í leit að frelsi. Þetta er rosaleg bók.
Hver er þín eftirlætis bók?
Það er Ender´s Game eftir Orson Scott Card. Sú bók minnir mig mikið á góða dvöl í Danmörku. Þetta er vísindaskáldskapur og sú eina í þeim flokki sem ég hef lesið. Góður vinur minn, Kristinn Björnsson, mælti með henni þar sem hann er mikill aðdáandi vísindaskáldskapar.
Hver er eftirlætis höfundurinn þinn?
Þessa dagana er það Simon Sinek. Ég hef nýlega hlustað á tvær bækur eftir hann en það eru Start with why og Leaders eat last, báðar ótrúlega skemmtilegar. Þeir sem hafa áhuga á stjórnun og markaðssetningu ættu ekki að láta þær fram hjá sér fara.
Hvernig bækur lestu helst?
Það er enginn einn flokkur sem ég les helst. Ég les eiginlega það sem konan mín kemur með heim, annars hef ég verið að færa mig yfir í hljóðbækur þar sem ég er svo lengi að lesa. Það er gott að vaska upp og vera með hljóðbók í eyrunum.
Hvaða bók hefur haft mest áhrif á þig?
Ég myndi segja The Goal eftir Eliyahu M. Goldratt. Sú bók hélt mér á tánum í náminu mínu.
Hvaða bók ættu allir að lesa?
Mýrin eftir Arnald Indriðason er auðvitað alltaf klassík og er eiginlega skyldulesning fyrir alla.
Hvar finnst þér best að lesa?
Það er alltaf best að leggjast upp í rúm með krakkana, lesa kvöldsögu og taka smá lögn. Annars hlusta ég líka mikið á bækur og þá getur maður verið á flakki.
Hvaða bækur standa upp úr sem þú vilt mæla með?
Fyrst er það Bjarnastaðabangsarnir. Þær eru stuttar, þægilegar og svo er alltaf svo mikið að gerast hjá þeim. Svo get ég hiklaust mælt með bókinni sem ég er að lesa núna, Með lífið að veði, alveg mögnuð bók.
Ef þú værir fastur á eyðieyju og mættir bara taka með þér eina bók, hvaða bók yrði fyrir valinu?
Ef ég væri fastur á eyðieyju þyrfti ég að taka með mér praktíska bók. Eftir góða leit myndi ég velja Outdoor survival skills eftir Larry Dean Olsen. Ég hef ekki lesið hana en ég er viss um að hún myndi koma sér vel.
Hvað er framundan í vetur?
Það sem er framundan í vetur er að vera duglegri við að lesa, kenna í Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Svo eigum við von á erfingja í nóvember sem við erum spennt að hitta.