Gott að eiga eina jólagjöf eftir á Þorláksmessu
Jóhann Sævar Kristbergsson, verkefnastjóri hjá Brunavörnum Suðurnesja, segist gæta hófsemi þegar kemur að jólaskreytingum.
– Ertu mikið jólabarn?
„Ég get ekki sagt að ég sé neitt svaka jólabarn en gleðst yfir hátíðleikanum.“
– Fóru jólaljósin fyrr upp í ár en í fyrra?
„Já, ekki er hægt að segja annað. Þau voru sett upp í ágætis veðri.“
– Skreytir þú heimilið mikið?
„Við gætum hófsemi í þessu máli.“
– Áttu einhverja sérstaka minningu frá jólum?
„Nei, ekki nema hvað það er alltaf hátíðlegt.“
– Hvað er ómissandi á jólum?
„Hangikjöt og samvera.“
– Hvað finnst þér skemmtilegast um jólahátíðina?
„Að vera með fólkinu mínu og frídagar.“
– Bakar þú fyrir jólin og hvað þá helst?
„Nei, frúin sér um það ágæti.“
– Hvenær klárar þú að kaupa jólagjafirnar?
„Það er voða gott að klára þau sem fyrst en svo er gott að eiga eina eftir á Þorlák.“
– Hvenær setjið þið upp jólatré?
„Setti það upp lengi vel á Þorlák en í seinni tíð hefur það farið upp um miðjan desember.“
– Eftirminnilegasta jólagjöfin?
„Kassagítar þegar ég var tólf ára.“
– Hvenær eru jólin komin fyrir þér?
„Þegar jólasálmar fara að hljóma.“
– Hefurðu sótt messu um jólahátíðirnar í gegnum tíðina?
„Hef svo sem engar hetjusögur um messuheimsóknir en samt þá hef ég sótt messur um hátíðarnar.“