Gönguröðin: Straumur - Hvassahraun í kvöld
Boðað er til gönguferðar í kvöld um ströndina frá Straumi að Hvassahrauni eða öfugt því vindáttin ræður för. Gangan tekur um það bil þrjár klukkustundir. Gengið verður í hrauni, stóru fjörugrjóti og graslendi, nauðsynlegt er að vera í góðum gönguskóm.
Lagt verður af stað kl 19:00 frá SBK og kostar kr 500 á mann í rútuna.
Gangan er önnur í röð gönguferða sem Rannveig Garðarsdóttir stendur fyrir í sumar í samstarfi við Hitaveitu Suðurnesja, Geysi Green Energy, SBK, Björgunarsveitina Suðurnes og Víkurfréttir.
Heilræðalistinn fyrir gönguferðina lítur svona út:
* Drykkjarföng.
* Léttan bakpoka.
* Viðeigandi hlífðarfatnað eftir veðri (t.d. aukapeysu, sokka, vettlinga, húfu).
* Létt nesti (t.d. samloku, ávexti, kex).
* Góðir gönguskór.
* Göngustafi.
* Góða skapið.
Vogar – Innri Njarðvík
Það voru fáir en hugaðir göngugarpar sem héldu af stað upp á Stapann í norðaustan roki og sólskini þegar farið var í fyrstu gönguna síðastliðinn miðvikudag.
Gengin var Stapagata sem er gömul þjóðleið á milli Voga og Keflavíkur.
Gengið var upp Reiðskarð eitt af fjórum skörðum austan megin í Stapanum, hin skörðin nefnast Kvennagönguskarð, Brekkuskarð, og Urðarskarð.
Reiðskarðið er fallega hlaðið og þaðan er gatan mjög greinileg upp á Stapann.
Þegar komið var upp á næsta hjalla var varla stætt fyrir roki en hlýtt svo ekki væsti um göngumenn.
Sveigt var útaf götunni og gengið niður Brekkuskarð þar sem skoðaðar voru tóftir bæja sem fóru í eyði snemma á 20. öld. Mikil fjara var svo það var farið út í Hólmabúðir, þar byrjaði Haraldur Böðvarsson útgerð sína á síðustu öld.
Þegar rölt var um Hólmabúðir flaug gæs upp af hreiðri með sjö fallegum eggjum.
Gengið var upp Brekkuskarðið til baka upp á Stapann og tók þá rokið hressilega á móti göngumönnum en sem betur fer í bakið. Þegar komið var upp á Grímshól hæsta punkt á Stapanum var rokið svo mikið að göngumenn áttu fullt í fangi með að halda sér við jörðina en það tókst að taka eina hópmynd.
Stapagatan liðast niður af Stapanum misjafnlega greinilega og liggur að hluta til undir Keflavíkurveginum sem var tekinn í notkun árið 1912 þá sem hestvagnafær vegur það sama ár braust fyrsti bíll þessa leið, svo þörf fyrir breikkun og endurbætur vegarins byrjuðu um leið og hann var tekinn í notkun og hafa staðið yfir síðan....
Þegar gengið var niður af Stapanum áleiðis að Innri Njarðvík lægði rokið að hluta og tilkomumikið var að sjá brimið í Kópu í sólsetrinu. Gengið var að Innri-Njarðvíkurkirkju og rifjuð upp saga kirkjunnar.
Það voru veðraðir og hressir göngugarpar sem settust upp í rútuna eftir tveggja og hálfs tíma göngu þetta kvöld.
Myndin að ofan er frá fyrstu göngunni en fleiri má sjá í ljósmyndasafninu hér á vefnum.
Myndir/Rannveig.