Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Göngugarpur úr Keflavík í Köben
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
laugardaginn 25. desember 2021 kl. 09:55

Göngugarpur úr Keflavík í Köben

Keflvíkingurinn Hrannar Hólm hefur þjálfað körfuboltafólk í Danmörku en segir nú Íslendingum sögur í gönguferðum um kóngsins Kaupmannahöfn

„Þegar við Halla fluttum í Jónshús fyrir sex árum fannst mér blóðið renna til skyldunnar að maður þyrfti að vita eitthvað um Jón og Jónshús og alla söguna sem tengist honum og byrjaði að stúdera söguna í kringum Jóns Sigurðsson og honum tengt,“ segir Hrannar Hólm, ráðgjafi, leiðsögumaður og eiginmaður Höllu Benediktsdóttur, forstöðumanns Jónshúss í Kaupmannahöfn. 

Á undanförnum árum hefur Hrannar orðið að göngugarpi í Kaupmannahöfn, svolítið sérstökum göngugarpi. Keflvíkingurinn er orðinn einn af sögumönnum borgarinnar og fjöldi Íslendinga hefur notið leiðsagnar Hrannars á undanförnum árum. Hrannar er „lifandi og léttur“ sögumaður og segir skemmtilega frá þegar hann rifjar upp ýmislegt frá því sem gerðist fyrr á öldum hjá kóngafólkinu og fleiru skemmtilegu í kóngsins Kaupmannahöfn. 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Á slóðum Jóns Sigurðssonar

„Þetta þróaðist eftir að við fluttum í Jónshús. Við Halla fórum að fara á slóðir Jóns Sigurðssonar, og á staði sem Jón hafði farið á og fórum að segja frá því á Facebook. Bjuggum þar til hóp og þannig vatt þetta upp á sig. Ég fann alltaf fyrir meira meiri áhuga á sögu borgarinnar og við héldum áfram að pósta fróðleik úr Kaupmannahöfn á Facebook sem margir fylgdust með. Svo þróaðist þetta í það að fólk fór að hafa samband eftir að hafa tekið eftir þessu, fylgjendur voru orðnir nokkur þúsund. Ég fór að fá fyrirspurnir frá fólki hvort ég gæti ekki farið með það í göngur og sagt sögur. Þannig byrjaði þetta og svo hefur þetta undið svona svakalega upp á sig og orðið að dágóðu starfi fyrir mig. Ég er ekki að segja fullu starfi, en þó á ákveðnum tímum á árinu. Við förum með litla og stóra hópa, vina- og vinnuhópa og fjölskyldur og sýnum þeim Kaupmannahöfn. Við förum um miðaldaborgina á slóðir Íslendinga, út á Kristjánshöfn, Norðurbrú og Vesturbrú og víðar. Svo förum við á sumrin í hjólatúra. Mjög skemmtilegt og viðbrögð fólks mjög góð.“

Ertu þá búinn að liggja yfir sögunni? 

„Ég er búinn að leggja ótrúlega mikla vinnu í að stúdera og lesa því maður þarf að hafa svör við öllum hlutum og vita eitt og annað og ef maður veit ekki þarf maður kannski að geta fært aðeins í stílinn. Þannig er þetta og hefur bara reynst rosalega vel og er skemmtilegt. Fólk er yfirleitt mjög ánægt og ég hef líka gaman af því segja sögur. Íslendinga þyrstir náttúrulega í að heyra sögur. Þá hefur það komið mér á óvart hve mikið af ungu fólki hefur komið í þessar göngur. Það vill heyra söguna líka.“  

Hrannar í Jónshúsi.

Söguleg mynd fyrir aftan hann.Mikil tenging

Hrannar segir að Kaupmannahöfn og Ísland hafi ótrúlega sterk bönd fleiri hundruð ár aftur í tímann og það er svo mikið af sögu Íslands í Kaupmannahöfn og fólki finnst gaman að heyra hana. 

„Margir þekkja hana ágætlega og vilja sjá hvar hlutirnir gerðust. Svo er Kaupmannahöfn líka frábær borg fyrir utan það sem tengist Íslandi og fólk hefur áhuga á að kynnast borginni. Hún hefur verið í gríðarlegri þróun og breytingarnar mjög miklar á síðustu tíu til tuttugu árum. Þetta er allt önnur borg en þegar við vorum að koma hingað sem ungir menn fyrir þrjátíu til fjörutíu árum. Ég held að engin borg úti í heimi standi Íslendingum nær en Kaupmannahöfn. Það er svo auðvelt að koma hingað og Íslendingar eru mjög duglegir að mæta til Köben á öllum tímum ársins. Auðvitað var minna þegar heimsfaraldur geisaði sem hæst en iðulega fyllist allt af Íslendingum. Aðventan er mjög skemmtileg og þá eru meiri líkur á því að hitta Íslendinga við Nýhöfn en á Laugaveginum.“

Fjölbreytileikinn

Hvað er merkilegast við Köben? 

„Fjölbreytileikinn er svakalega mikill. Svo er sagan ótrúleg. Mörg ólík hverfi og það er gaman ef maður nær að kynnast því hvað það er mikill fjölbreytileiki í mannlífi, arkitektúr, hönnun og öllu slíku. Þú getur farið á milli staða og upplifað svo marga mismunandi og skemmtilega hluti. Svo er borgin ótrúlega falleg, það er mikið um fall-ega garða og gaman að vera hérna. Á sumrin eru þeir fullir af fólki sem tyllir sér niður með brauð og drykk. Svo er fólkið hérna mjög skemmtilegt. Danir passa vel upp á sig og eru í góðu formi og það er svona ákveðin stemning í kringum það. Svo er mikil reiðhjólamenning sem gerir það að verkum að við Halla höfum ekki átt bíl í mörg ár. Við hjólum eða göngum hvert sem við förum og ef það rignir þá tekur maður bara lestina þannig að það eru mjög margir hlutir sem eru góðir við Kaupmannahöfn. Við Halla erum mjög sátt hérna.“ 

Gott að borða

Hrannar segir að matur og drykkur séu í hávegum höfð í borginni. Margir staðir um alla borga.

„Svo er náttúrulega gaman að fara út að borða í Köben. Veitingamennska hefur sprungið út á síðasta áratug og það er óendanlega mikið af góðum og fjölbreyttum veitingastöðum í borginni, fínum stöðum og mjög mörgum minni stöðum. Tveir veitingastaðir í Kaupmannahöfn voru nýlega valdir tveir af bestu veitingastöðum í heimi, þannig að það er endalaust úrval og gaman að vera úti, sérstaklega á sumrin en líka á veturna. Það finnst mér dásamlegt og Danir eru rosalega miklar útiverur. Þú sérð bara þegar þú labbar um bæinn að mjög margir sitja úti þó það sé komin fram í miðjan nóvember. Veitingamennirnir eru með hitara fyrir utan staðinn og markísu (tjald) yfir þannig að það er lítið mál að sitja úti þó að hitastigið sé ekki mjög hátt.“

En hvað er þetta með smurbrauð og bjór í Köben?

„Smurbrauðið er náttúrulega danskara en allt sem danskt er þegar kemur að matargerð. Smurbrauð og bjór er þjóðarétturinn í Danmörku, dásamlega góður matur og hann hefur líka gengið í endurnýjun lífdaga. Það hafa komið úrvals góðir kokkar til borgarinnar í kjölfar matarbylgju sem einhvern veginn gekk yfir. Þeir hafa komið með nýjungar og eru að útbúa hlutina á nýjan hátt. Smurbrauð er fyrst og fremst borðað í hádeginu og það er alltaf gaman að fara að fara á góðan veitingastað í borginni. Það eru örugglega fjörutíu, fimmtíu góðir slíkir staðir í Kaupmannahöfn. Það er eitt af því skemmtilegasta sem ég geri, að fara með góðum vinum í gott „smörrebröd“ og tilheyrandi á einn af mörgum „frokost“ stöðum.“ 

Maður tekur eftir því að snafs er líka nauðsynlegur með brauðinu og bjórnum? Hvað er svo besti snafsinn. Maður sér að margir fá sér slík „skot“?

„Ég er ekkert sérstaklega mikill snafsamaður. Það er best að fara á góðan frokost-stað og fá eitthvað sem er heimatilbúið. Flestir þessir staðir eru kannski með þrjátíu, fjörutíu eða fimmtíu tegundir af snöfsum. Þú talar bara við þjóninn og spyrð hverju hann mælir með. Svo drýpurðu hægt og rólega á einu staupi, með rækjunum eða rauðsprettunni. Þá er þetta pottþétt. En ég mæli ekkert endilega með meira en einu snafsglasi. Það er ekkert rosalega skynsamlegt,“ segir Hrannar og hlær..

Áhugaverðir staðir

Í borginni eru margir þekktir staðir sem ferðamenn sækja, eins og Nýhöfn, tívolíið og Strikið. Hrannar segir að það sé skemmtilegt að sjá viðbrögð fólks og að augu þeirra opnist meira þegar farið er að skoða aðra áhugaverða staði. Stórar borgir hafa upp á svo miklu meira að bjóða heldur en bara þar sem túristarnir eru. Það er mjög gaman að upplifa viðbrögð fólks í göngunum hjá mér þegar við förum á staði sem eru ekki þekktustu túristastaðirnir og eins þegar við förum á Íslendingaslóðir.“

Hrannar er fæddur og uppalinn í Keflavík og því liggur beint við að spyrja hann af hverju hann endaði í Kaupmannahöfn? 

„Ég kom hérna fyrst út af viðskiptalegum erindum á sínum tíma. Fyrir tólf árum var ég í forsvari og einn af eigendum fyrirtækis og við vorum með töluvert mikla starfsemi og marga starfsmenn í Köben. Við vorum búnir að sameinast öðrum fyrirtækjum í Danmörku og ég flutti hingað út og með fjölskylduna til að sinna því starfi og svo breyttist það fyrir um áratug. Ég fór út úr því og en ákvað að vera áfram í Kaupmannahöfn og reyna fyrir mér í öðru. Á þessum tíma hef þjálfað mikið í körfubolta eins og ég gerði í gamla daga, enda Keflvíkingur eins og þú veist og síðan fór ég að bjóða upp á göngur en ég hef alltaf verið að vinna mikið við ráðgjöf líka. Svo fékk Halla kona mín frábært starf sem umsjónarmaður Jónshúss sem gerir það að verkum að við búum á dásamlegum stað og hún er í frábærri vinnu. Við höfum það ótrúlega gott hérna.“ 

Hvernig var að þjálfa í Danmörku? 

„Körfubolti er ekki stærsta íþróttagrein í Danmörku, knattspyrna, hjólreiðar, badminton og handbolti eru stórar greinar og körfuboltinn á ekki mikinn séns í svona stórri borg. Það hefur ekki gengið nógu vel að finna styrktaraðila og þá er erfitt að búa til stemningu í kringum þetta. Ég fór að þjálfa í kvennadeildinni og við gerðum það mjög gott og vorum að spila í Evrópukeppni sem var mjög gaman og svo var ég með landsliðið í nokkur ár, sá bæði um karla og kvennalandsliðið Danmerkur. Karfan er sem sagt ekki stór íþrótt í Kaupmannahöfn er það hins vegar í Árósum og Svenborg, Horsens og víðar.“

Ekki á heimleið

Hrannar segist fylgjast vel með því sem er að gerast á heimaslóðum, í Keflavík og á Íslandi og á stóran vina- og ættingjahóp þar.

„Við eigum náttúrulega mikið af góðum vinum og fjölskyldum sem búa á Suðurnesjum, foreldrar mínir eru þar og svo auðvitað margir vinir mínir frá körfuboltaárunum í Keflavík, gömlu körfuboltahundarn-ir eins og Gaui Skúla og Siggi Ingimundar og fleiri. Við erum í mjög góðu sambandi og við ræðum reglulega málin og þá fær maður alltaf fréttir um hvað sé að gerast, hvort sem það er í í körfuboltanum eða pólitíkinni og ýmsu öðru. Án þess að ég liggi eitthvað yfir því þá er ég alveg þokkalega vel með á nótunum um hvernig hlutirnir að gerast heima fyrir.“

Þið eruð sem sagt ekkert á leiðinni heim? 

„Nei og ef ég haga mér vel og elda góðan mat fyrir Höllu fæ ég að búa í Jónshúsi þannig að ég stefni að því að gera það áfram. Hún stendur sig ótrúlega vel í sínu starfi þannig að við erum ekki á leiðinni heim. Ég vil hvergi annars staðar vera þó að Keflavík sé fínn staður.“

„Við förum með litla og stóra hópa, vina- og vinnuhópa og fjölskyldur og sýnum þeim Kaupmannahöfn“

Fróðleikur af Facebook síðunni Halla og Hrannar á göngu um Kaupmannahöfn.

Riddarastyttan af Friðriki 5. í miðri Amalíuborg, nákvæmlega í miðjunni á Friðriksstað sem nefndur er í höfuðið á kóngsa. Styttan úr bronsi, vígð 1771, tók 14 ár að fullgera hana. Þegar upp var staðið vóg hún 22 tonn og kostaði meira en allar hallirnar sem eru á torginu. Aðallinn borgaði, var ríkur, enda flaut Kaupmannahöfn í peningum á þeim tíma.

Markaðshallirnar liggja alveg við Norðurhliðið (Nørreport) sem enn heitir svo, þrátt fyrir að hér sé ekkert hlið lengur. Bara lestarstöð. Neðanjarðar. En akkúrat hér, þar sem steinninn og Halla eru var sjálft Norðurhvliðið. Í 600 ár voru eingöngu fjögur hlið á borgarvirkinu. Lokuð á nóttunni. Hliðin voru þröng og miklar biðraðir. Borgarbúar og bændur hötuðu hliðin til jafns. Mikil gleði í borginni 1857 þegar þau loks voru fjarlægð, og umferð inn og útúr bænum gefin fráls.



Við Amagertorg á Strikinu eru þrjár glæsilegar verslanir sem byggja á gæðum og hefðum. Hér Royal Copenhagen, hægra megin er Georg Jensen og vinstra megin við Disney er Illum Bolighus. Þessar þrjár verslanir hafa mikið aðdráttarafl fyrir jólin, enda dönsk hönnun í fyrirrúmi. Húsið sjálf líka merkilegt, frá 1616. Hér átti Kristján fjórði hjákonu sem frægt varð.

Ein af jólahefðunum hjá Royal Copenhagen eru jólaborðin. Í 58 ár hefur ýmsum verið boðið að skreyta jólaborð eftir eigin höfði. Heil hæð er tekin undir jólaborðin. Afar vinsælt. Einn af jólaborðaskreyturum jólin 2020 var smørrebrauðskóngurinn Adam Aamann. Stílhreint og skemmtilegt, væri ekki leiðinlegt að sitja hér ef hann sæi um matinn á borðið.

Smurbrauðið er náttúrulega danskara en allt sem danskt er þegar kemur að matargerð. Smurbrauð og bjór er þjóðarétturinn í Danmörku, dásamlega góður matur og hann hefur líka gengið í endurnýjun lífdaga.

Hnotubrjóturinn er í stuði á jólunum í Kaupmannahöfn. Ballett í Konunglega Leikhúsinu og í Tívolí. Alltaf uppsellt. Reyndum að kaupa miða, vorum þremur mánuðum of sein. Breytir þó litlu núna, öllu aflýst. En sjálfur hnotubrjóturinn er lítill, fínn, trékall sem brýtur hnetur með munninum, berst við mýs og vinnur hug lítillar stúlku. Vinsælt jólaskraut, blessaður, þó svo að ekki brjóti hann hnetur lengur.



Komin í Tívolí. Hvergi er jólastemmningin jafn ráðandi eins og einmitt þar. Vorum heppin að vera á ferðinni snemma í desember, náðum inn fyrir lokun. Hér er endalaus ljósadýrð, jólatré, jólasveinar, jóladrykkir og jólamatur. Tívolí er fastur partur af jólunum í Kaupmannahöfn, en Tívolí var fyrst opnað um jólin árið 1994. Menn voru óvissir um hvort það væri sniðugt, en nú koma um milljón manns á nokkrum dögum.

KRISTJÁN FJÓRÐI (#42) kóngur í 60 ár, 1588 – 1648, mótaði og gerbreytti Kaupmannahöfn, gerði hana að alvöru borg. Moldríkur í byrjun, kláraði peninginn, þurfti að veðsetja kórónuna. Eignaðist (amk) 25 börn með (amk) 5 konum. Alltaf í stríði og tapaði öllum, nema einu. Samt er Kristján mögulega merkilegasti og vinsælasti kóngur Danmerkur. Framsýnn og stórhuga, mikinn áhuga á viðskiptum, vísindum, arkítektúr og borgarþróun. Kaupmannahöfn er heimsfræg fyrir arkítektúr, gamlan og nýjan, og Kristján lagði grunninn. Og þótt 400 ár séu liðin, eru spor Kristjáns og byggingar út um allt í borginni.

33 ár á milli viðtala í Jólablaði Víkurfrétta

Halla og Hrannar voru í viðtali í Jólablaði Víkurfrétta fyrir nákvæmlega 33 árum síðan. Þá voru þau við nám í Þýskalandi og ritstjóri Víkurfrétta hitti þau þegar hann fór í dagsferð til Stuttgart, til að fylgjast með knattspyrnuleik hjá þýska liðinu sem Íslendingurinn Ásgeir Sigurvinsson lék með í mörg ár. Við gátum ekki sleppt því tækifæri að endurbirta viðtalið við þau enda mjög skemmtilegt.

Hér er linkur á viðtalið við Höllu og Hrannar í jólablaðinu 1983. Öll tölublöð Víkurfrétta má finna á timarit.is