Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Göngugarpar frá Suðurnesjum skoða Grænahrygg
Thelma Hrund Hermannsdóttir
Thelma Hrund Hermannsdóttir skrifar
þriðjudaginn 6. september 2022 kl. 09:55

Göngugarpar frá Suðurnesjum skoða Grænahrygg

Hópur af hressum Suðurnesjadömum fór í átta tíma göngu að Grænahrygg fyrr í ágúst. Ferðin var löng, skemmtileg og einstaklega falleg en henni fylgdu ákveðnar áskoranir. Þá þurfti hópurinn að vaða yfir ár, klífa tinda og ganga um í snjó og lausum jarðvegi til að komast að hryggnum. Blaðamaður Víkurfrétta slóst með í för og ræddi við þær Ingu Láru Jónsdóttur og Guðnýju Petrínu Þórðardóttur eftir gönguna. 

„Þetta voru rúmlega sautján kílómetrar með rúmlega 800 metra hækkun. Það var svolítið laus jarðvegurinn og brekkurnar niður á við voru því smá áskorun. Þetta er skilgreind sem erfið ganga en fyrir mig var þetta frekar þægileg ganga. Kannski erum við bara í svona góðu formi,“ segir Guðný hlæjandi og Inga tekur undir með henni. 

Aðspurðar hvernig tilfinningin var að sjá Grænahrygg eftir langa göngu segir Inga Lára: „Það var búið að lýsa fyrir mér áður en við fórum af stað að Grænihryggur væri mjög fallegur en leiðin að honum væri ennþá fallegri. Landslagið sem var á leiðinni var gjörsamlega sturlað en hryggurinn sjálfur líka ótrúlega fallegur.“ Guðný er sammála Ingu og segir landslagið í kring hafa nánast toppað hrygginn sjálfann. „Liturinn á hryggnum er ótrúlega fallegur en hann er frekar lítill. Þegar við vorum að labba frá Grænahrygg kom svolítið skemmtilegt landslag með öllum litum og mér fannst það eiginlega skemmtilegast,“ segir Guðný. 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Inga Lára smalaði hópnum saman sem fór í ferðina og þekktust flestir með einum eða öðrum hætti. Inga segir félagsskapinn skipta „gríðarlega miklu máli“ í slíkum ferðum. „Þetta var ótrúlega flottur hópur og allir náðu vel saman, sama á hvaða aldri hver og einn var,“ segir Inga. Það er skemmst frá því að segja að hópurinn hafi fundið sig knúinn til að byrja strax að skipuleggja aðra ferð á leiðinni heim en hópurinn stefnir á að fara í göngur reglulega og jafn vel ganga Laugaveginn á næsta ári. „Við erum búnar að setja stefnuna á Laugaveginn næsta sumar, það þýðir ekkert minna en það. Þetta var dagsferð núna en við erum eiginlega að stefna að einhverjum þremur eða fjórum dögum í þá ferð á næsta ári. Við erum alla veganna búnar að tala um það en það er ekkert neglt í stein,“ segir Guðný og Inga bætir við: „Okkur langar svo að fara styttri ferðir fram að því til að undirbúa okkur.“

Þær segja ferðina hafa ýtt undir áhuga margra í hópnum á göngu. „Þetta kveikti áhugann hjá svolítið mörgum, ég veit að margir voru duglegir að labba fram að þessu og langar að halda áfram eftir þetta líka,“ segir Guðný. „Svo hafa nokkrir pikkað í mann og sagst vilja með í næstu ferðum, sem er bara frábært,“ segir Inga.

Fegurðin gönguleiðarinnar leyndi sér ekki en myndir segja meira en þúsund orð, sjáðu myndir og viðtal við göngugarpa í Suðurnesjamagasíni hér að neðan.