Gönguferð um Verslunarmannahelgina
Farið verður í göngu um Verslunarmannhelgina, þá fyrstu af þeim fimm menningar- og sögutengdu gönguferðum sem fyrirhugaðar eru á næstunni. Leiðsögumenn Reykjaness munu leiða hópinn og fræða hann um það sem fyrir augu ber. Gengið verður frá Bláa lóninu að Húsatóftum en leiðin er um 7.5 km löng. Lagt verður af stað frá Bláa lóninu kl. 11:00.
Gengið verður um Illahraun að Lágafelli, inn á Skipsstíg, litið á Dýrfinnuhelli, haldið vestur eftir Reykjavegi yfir Bræðrahraun og inn á Árnastíg, skoðaður staður þar sem B17 (Fljúgandi virkið) nauðlenti 1943. Árnastíg verður síðan fylgt að Húsatóftum með Sundvörðuhrauni. Á leiðinni verður m.a. litið á fornar refagildrur og þjóðsögulega staði.
Áætlað er að gangan taki 4-5 klst. með nestisstoppi og fræðslu. Leiðin er greiðfær að mestu (gömlum þjóðleiðum fylgt).
Rúta mun flytja göngufólk frá Húsatóftum til baka að Bláa lóninu. Ekkert þátttökugjald er í gönguna, en hver og einn þarf að greiða rútugjald kr. 500 frítt fyrir börn undir 12 ára. Bláa lónið býður þátttakendum upp á “tveir fyrir einn” í lónið eftir gönguna.
Gangan er fyrsti hluti af fimm menningar- og sögutengdum gönguferðum um hluta af gömlu þjóðleiðunum á Reykjanesskaganum sem ætlunin er að ganga á tímabilinu frá 6.ágúst – 3. sept. ´06.
Ferðamálasamtök Suðurnesja hafa gefið út göngukort „Af stað á Reykjanesið” og hafa jafnframt verið að stika gömlu þjóðleiðirnar. Leiðsögumenn Reykjaness munu sjá um fræðsluna og leiða hópinn. Reynt verður að gera göngurnar bæði skemmtilegar og fræðandi. Ferðirnar miðast við alla fjölskylduna og er áætlað að hver ganga taki ca. 4 -5 klst. með leiðsögn og nestisstoppi. Boðið verður upp á kort þar sem göngufólk safnar stimplum fyrir hverja ferð og þegar búið verður að fara 3 - 5 þjóðleiðir, verður dregið úr kortum og einhver heppinn fær góð verðlaun. Dregið verður eftir síðustu gönguna.