Góður göngutúr á Garðskaga
Jónína Magnúsdóttir, náms- og starfsráðgjafi hjá MSS.
Á að ferðast eitthvað yfir páskahelgina? - Ef ekki, hvernig á að verja helginni?
Verð í Berlín fram á skírdag. Helginni verður varið með fjölskyldunni þar sem lagt verður upp úr mat, samveru og kósýheitum. Skellum okkur eins og einn dag á skíði ef viðrar og góður göngutúr út á Garðskagavita er á dagskránni.
Áttu þér einhverjar hefðir sem tengjast páskunum?
Hefðirnar eru tengdar samveru með fjölskyldunni, rólegheitum og mat. Sem barn var leitin að Nóa og Síríus páskaegginu mest spennandi fyrir utan eitt skipti þegar pabbi var svo sniðugur að setja það út í glugga og morgunsólin hreinlega át það Í dag er ég spenntust að fela eggin fyrir strákunum mínum og set ég oft vísbendingar úti og inni til að gera leitina enn meira spennandi.
Hvað er borðað á þínu heimili á páskadag?
Það eru engar hefðir hjá mér í mat á páskadag, en í ár verður það lambalæri.
Hvernig páskaegg ætlar þú að fá þér í ár?
Ég hef ekki keypt mér eggið svo það verður örugglega keypt korter í páska. Mér finnst nú einhvern veginn að ég breyti nú ekki miklu og skelli í eitt Nóa og Síríus nr. 4.