Góðar fréttir af Bryndísi Huldu
Fyrir skömmu sögðum við frá eins árs hetju, Bryndísi Huldu Garðarsdóttur, sem fæddist með flókinn og alvarlegan hjartagalla og fór í sína fyrstu aðgerð aðeins þriggja daga gömul.
Á þessari síðu á Facebook, sem ber nafnið Hjartadrottningin, hafa foreldrar og nánir aðstandendur sett inn fréttir og myndir af Bryndísi Huldu litlu og fengið margar og hlýjar kveðjur frá kunnugum sem ókunnugum. Þau settu inn fyrr í dag þessa færslu:
Jæja loksins almennilegar fréttir!
Í gær var loksins sjáanleg framför í hjartavöðvanum! Læknarnir eru að minnka lyfin hægt og rólega, og æðaleggirnir sem voru „saumaðir“ í hálsslagæðina voru teknir áðan, og hún þoldi svæfinguna vel.
Hún er alltaf að þola að vakna betur og betur en er auðvitað mjög lyfjuð og ekki beint á staðnum ef svo má segja, og hún er öll mjög stíf.
Hún er enn í öndunarvél og við bíðum bara eftir framhaldinu.
Það er enn of snemmt að segja til um hvað verður eða hvenær við getum farið heim, svo við reynum bara að bíða róleg, vona og taka einn dag í einu. ♡♡
Myndin sem fylgir fréttinni er af Bryndísi Huldu og syskinum hennar, Dagnýju Ósk og Rökkva.
Eftirfarandi mynd var tekin af Bryndísi Huldu í gær.
Víkurfréttir senda Bryndísi Huldu og fjölskyldu hennar góðar kveðjur.