Góð veiði í Seltjörn
Seltjörn á Reykjanesi opnaði síðasta sunnudag og veiddust 98 urriðar fyrsta daginn sem einkenndist af miklum vindi en þó góðu sólskini. Var stærsti urriðinn sem veiddist um 56 cm langur sem telst vera um 4 pund. Telst þetta vera mjög góð byrjun og eru staðarhaldarar því ánægðir og bjartsýnir fyrir sumarið en um helgina var sleppt um 3.000 urriðum í vatnið til viðbótar við þá sem sleppt var í fyrra og eru að mestu leyti ennþá í vatninu. Áætlað er að sleppa að minnsta kosti 3.000 urriðum til viðbótar í sumar.
Stærð urriðans er frá 1 pundi og allt upp í 10 pund en mest er af 1-3 punda fiski. Einnig er talsvert af bleikju í vatninu og hafa þær veiðst allt að 4 pundum. Aðallega er veitt á flugu í Seltjörn þó allar gerðir af agni séu leyfðar en þess má geta að af þeim 98 fiskum sem veiddust í gær var um 90 sleppt aftur í vatnið við góða heilsu.
Meðal gesta á opnuninni var stjórn Stangaveiðifélags Keflavíkur en félagið hefur nýverið náð samkomulagi við rekstraraðila Seltjarnar um sérkjör félaga í SVFK á sumarveiðileyfum í vatninu sem hafa mælst mjög vel fyrir hjá ötulum fluguveiðimönnum í SVFK.
Einnig voru kynnt til gamans ný örnefni á ýmsum kennileitum við vatnið og má sjá á meðfylgjandi mynd bæjarstjóra Seltjarnarness, Jónmund Guðmarsson, vígja hið “nýja” Seltjarnarnes sem hefur verið afar farsæll fluguveiðistaður síðustu ár.