Góð uppskera hjá Janusi og eldri borgurum Reykjanesbæjar
Janus Guðlaugsson, íþrótta- og heilsufræðingur, hefur undanfarnar vikur leiðbeint eldri borgurum í Reykjanesbæ í heilsueflingu. Verkefnið hefur annars vegar farið fram í Reykjaneshöll og hins vegar í Massa í íþróttahúsi Njarðvíkur. Lokadagur í sameiginlegum æfingum fyrir jól var í Massa í síðustu viku en þátttakendur verða áfram í sjálfstæðri þjálfun samkvæmt áætlun. Verkefnið heldur síðan áfram eftir áramót og hefur fengið veglegan styrk frá Uppbyggingarsjóði Suðurnesja fyrir árið 2018.
Þriðjudaginn 12. desember var jóla- og uppskeruhátíð á Nesvöllum en þar var m.a. farið yfir afrakstur síðustu sex mánaða hjá hópnum sem hefur náð mjög góðum árangri á síðustu mánuðum.
Janus segir að það hafi gengið einstaklega vel að fá eldri borgara til að hreyfa sig og fara af stað í hreyfingu. Markmiðið sé að efla heilsu þeirra og velferð, hann segir einnig að þekking þeirra á eigin heilsu sé að eflast.
Sólborg Guðbrandsdóttir mætti með myndavélina á jóla- og uppskeruhátíðina og smellti af meðfylgjandi myndum.