Góð stemmning í bænum
Fjöldinn allur af myndlistarsýningum var opnaður í gær á fyrsta degi Ljósanætur, þeirri tíundu sem fram fer í Reykjanesbæ. Á meðal annarra viðburða má nefna fjölsótt sagnakvöld á Nesvöllum þar sem viðstaddir skemmtu sér konunglega undir gamanmálum valinkunnra sagnameistara. Tónleikar unga fólksins fóru fram í 88 húsinu og í Svarta pakkhúsinu var húsfyllir á tónleikum sem Guðmundur Rúnar Lúðvíksson stóð fyrir. Með honum á sviðinu var fjöldi tónlistarmanna af svæðinu.
Í dag hefst dagskrá kl. 13:00 með ratleik fyrir alla fjölskylduna í bátasal Duushúsa og kl. 15:30 leggja ungir sundkappar ÍRB af stað í áheitasund en synt verður frá Víkingaheimum og að höfninni í Keflavík. Sundmenn vonast eftir góðu veðri og ljúfum straumum, bæði frá íbúum bæjarins þegar þau safna áheitum sem og Ægi konungi þegar þau eru á sundi.
Það verður margt skemmtilegt í boði fyrir börn og ungmenni og má þar nefna leiktæki skáta við Duustorg og Sæþotufélagið Kefjet ætlar að bjóða upp á krakkarúnt á sæþotum í smábátahöfninni í gróf.
Sýningin Reykjanes 2009 verður opnuð með viðhöfn í Akademíunni undir yfirskriftinni: "þekking, orka, tækifæri" og verður þar kynnt margt það áhugaverðasta sem Reykjanesbær hefur upp á að bjóða í atvinnulífi, menningu- og þjónustu.
Ekki má gleyma opnun rokksafns Rúnars júlíussonar við Skólaveg en ljósalagið í ár „Ég sá ljósið" er einmitt eftir þennan bæjarlistamann Reykjanesbæjar.
Sýning Ingu Þóreyjar Jóhannsdóttur Flökkuæðar - Loftfar opnar í Listasafni Duushúsa kl. 18:00. Félag harmonikkuunnenda býður í harmonikkuball á Nesvöllum og áhugasemir geta fylgst með hnefaleikum í gömlu Sundhöllinni kl. 20:00.
Kvöldskemmtun hefst við stóra sviðið kl. 19:00 þar sem boðið verður upp á súpu í boði Skólamatur.is. Fluttur verður barnasöngleikurinn Ljós um nótt í umsjón Keflavíkurkirkju en einnig koma fram Hrókar, Pakkið í Pakkhúsinu, Deep Jimi & The Zep Creams, Lifun og GCD. GCD kemur fram eftir langt hlé til heiðurs Rúnars Júlíussyni, og í spor hans fetar sonur hans Júlíus á bassa.