Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Góð leið til að kynnast samfélaginu
Dagný Jónasdóttir, formaður, fjórða frá hægri með fleiri kvenfélagskonum.
Laugardagur 19. október 2024 kl. 07:00

Góð leið til að kynnast samfélaginu

Kvenfélag Keflavíkur 80 ára – afmælisfagnaður 19. október í Kirkjulundi

„Að vera í kvenfélagi er góður og skemmtilegur félagsskapur þar sem konur hittast og gera skemmtilega hluti saman. Sú ímynd að kvenfélagskonur séu bara miðaldra, háaaldraðar og alltaf bakandi er bara ekki rétt,“ segir Dagný Jónasdóttir, formaður Kvenfélags Keflavíkur sem fagnar 80 ára afmæli um þessar mundir. Afmælisveisla verður í Kirkjulundi 19. október kl. 15.

Í félaginu eru 42 hressar konur á öllum aldri og Dagný segir að starfið gangi vel. Félagið sé í góðu samstarfi við Kvenfélagasamband Gullbringu og Kjósarsýslu þar sem konur úr báðum félögum fara t.d. í göngur saman.

En hvernig gengur starfið?

„Við erum með fundi fyrsta mánudag í hverjum mánuði nema ekki yfir sumartímann. Við hittumst og höfum gaman, fáum okkur kaffi saman og ræðum ýmislegt og fáum ýmiskonar fræðslu á fundum. Erum náttúrulega með fjáraflanir því við erum jú líknarfélag og fjáröflum fyrir alla vega félög og einstaklinga, bökum kleinur og seljum. Svo erum við með hlaðborð á 17. júní sem er orðið að hefð hjá mörgum að koma við og fá sér kaffi og með því. Svo er alltaf bingó í nóvember sem er mjög vinsælt hjá okkur. Þá leitum við til fyrirtækja og verslana sem eru alltaf tilbúin að styrkja okkur með gjöfum. Þá förum við í ferðir innan- sem utanlands og út að borða og hafa gaman saman. Fundurinn í maí er alltaf hattafundur. Þá setjum við upp hatta og hittumst á veitingastað og skemmtum okkur. Í desember höfum við verið með jólaball fyrir aldraða og svo er alltaf flottur jólafundur hjá okkur. Það alltaf nóg að gera og skemmtilegt að hittast. Ég hvet bara konur til að koma á fund hjá okkur og kynnast starfinu og ekki síst konur sem eru nýfluttar á svæðið. Þetta er besta leiðin til að kynnast samfélaginu og eignast góðar vinkonur í gegnum kvenfélagið.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Kaffihlaðborð á 17. júní er alltaf vel sótt.

Stjórn Kvenfélags Keflavíkur 2024

Dagný Jónasdóttir, formaður, Fríða Bjarnadóttir, varaformaður, Sigurlaug Guðmundsdóttir, gjaldkeri, Sigurlaug Halldórsdóttir, ritari. Meðstjórnendur: Dalrós Jónasdóttir, Ingibjörg Gunnarsdóttir og Hildur Friðþjófsdóttir.

Þær eru ófáar veislurnar í gegnum tíðina.

Stórhuga kvenfélagskonur
Árið 1944 sunnudaginn 15. október voru nokkrar konur boðaðar til fundar í UMFK húsinu í Keflavík með það fyrir augum að stofna kvenfélag, um 30 konur mættu á fundinn.

Frummælandi, frú Guðný Ásberg, hafði verið í sambandi við konur úr Landssambandi Kvenna og komu þær Aðalbjörg Sigurðardóttir og Guðrún Pétursdóttir og aðstoðuðu keflvískar konur og var félagið síðan stofnað og hlaut nafnið Kvenfélag Keflavíkur.

Á fyrstu árum félagsins gekkst félagið fyrir jólaskemmtun fyrir aldraða í plássinu til ársins 1979, eftir það tók félagið svo að sér að sjá um skemmtun fyrir aldraða á öllum Suðurnesjum. Kvenfélagskonur voru stórhuga og á fyrsta ári félagsins var safnað fyrir röntgentækjum á Sjúkrahús Keflavíkurlæknishéraðs sem þá var í byggingu. Einnig söfnuðust 45 þúsund krónur sem skyldu ganga upp í kostnað af einu herbergi sem var ætlað sængurkonum. Fyrstu fjáröflunarleiðir félagsins voru hlutaveltur, 17. júní höfðu konur kaffisölu í Verkalýðshúsinu við Túngötu.

Myndir úr sumarferðalagi Kvenfélagsins á árum áður.

Fyrsta þorrablót Kvenfélagsins var haldið í Ungó í janúar 1946 og var það aðaltekjulind þess í mörg ár, seinna bættust bingóin við svo og aðrar fjáraflanir. Í gegnum árin hefur félagið tekið þátt í fjölmörgum sameiginlegum verkefnum með öðrum kvenfélögum á Suðurnesjum og á landsvísu. Í mörg ár seldu félagskonur jólakort sem listakonur á svæðinu gáfu félagsinu til prentunar sem seldust mjög vel. Gengust félagskonur fyrir hinum ýsmu námskeiðum þar sem mikil fjölbreytni var í boði. Kvenfélagið hefur jafnan kappkostað að leita ráða til að koma hagnýtri fræðslu til sinna félaga.

Strax árið 1945 gerðist Kvenfélag Keflavíkur aðili að Kvenfélagssambandi Gullbringu- og Kjósarsýslu sem einnig er aðili að Kvenfélagssambandi Íslands.

Í gegnum tíðina hefur verið mikið um heimsóknir milli félaganna og skiptast félögin á að halda aðalfund KSGK. Tvímælalaust var stærsta verkefni félagsins að reisa félags- og dagheimili sem vígt var 8. maí 1954. Þetta var mikið átak því næstum allt var unnið í sjálfboðavinnu.

Kvenfélagskonur byggðu Tjarnarlund í Keflavík, fyrsta dagheimilið á Suðurnesjum.