Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Gleði að vera stjarna eina kvöldstund - fjör á Fló á skinni
Marta Eiríksdóttir
Marta Eiríksdóttir skrifar
laugardaginn 2. nóvember 2019 kl. 08:26

Gleði að vera stjarna eina kvöldstund - fjör á Fló á skinni

Leikfélag Keflavíkur á sér langa sögu í menningarlífi bæjarins. Þar hafa margir íbúar Suðurnesja stigið sín fyrstu spor á leiksviði og jafnvel orðið atvinnuleikarar seinna meir.

Þessa dagana er Leikfélag Keflavíkur að sýna gamanleikinn Fló á skinni í Frumleikhúsinu, sem er farsi eins og þeir gerast bestir. Þrátt fyrir að farsinn, sem er eftir Dario Fo, sé yfir hundrað ára gamall þá virðist hann alltaf hafa náð að kæta áhorfendur í gegnum árin, sem veltast um af hlátri.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Í uppfærslu Leikfélags Keflavíkur hefur leiksýningin verið staðfærð á Suðurnesin en það gerði Karl Ágúst Úlfsson, sem jafnframt er leikstjóri sýningarinnar.

Víkurfréttir skelltu sér á æfingu og forvitnuðust um fólkið á bak við sýninguna.

Brynja Ýr Júlíusdóttir, aðstoðarleikstjóri í sýningunni Fló á skinni.

„Prufur voru í byrjun september en við byrjuðum að æfa á fullu um miðjan september, leikarar eru fjórtán samtals. Þetta er 112 ára gamall farsi, samin árið 1907 og er búin að vera rosalega vinsæll alla tíð. Leikgerðin er þýdd af Gísla Rúnari og hann nútímavæðir þetta fyrir tíu árum þegar Leikfélag Akureyrar setti þetta upp. Karl Ágúst Úlfsson, leikstjóri okkar að þessu sinni, nútímavæddi sýninguna aðeins meira og tengdi við Suðurnesin.“

Eigum við eftir að heyra nöfn sem við könnumst við?

„Nei, það er ekki verið að gera grín að ákveðnum einstaklingum en bæirnir á Suðurnesjum koma við sögu. Hótelið vinsæla er til dæmis staðsett í Sandgerði. Þetta er rosalega skemmtilegt, það er allt út um allt, leikararnir eru búnir að skemmta sér konunglega á æfingum og það er heilmikil leikfimi að taka þátt í þessari sýningu. Farsinn er misskilningur, risastór flækja sem springur upp í loft. Persónurnar eru mjög skemmtilegar. Ég sem áhorfandi hef hlegið á hverri einustu æfingu. Ég er ekki að leika í þessari sýningu heldur er ég aðstoðarleikstjóri ásamt Söndru Dís sem aðstoðar með texta en ég er mikið þarna sem stjórnarmeðlimur leikfélagsins, að sjá til þess að allt sé í góðu og aðstoða við að setja saman æfingaplan, upplýsingar í leikskrá og allt í kringum þetta. Hlutverk okkar er að hjálpa leikaranum á bak við tjöldin. Við Sandra Dís erum svona skilaboðaskjóðurnar hans Kalla, léttum undir með leikstjóranum.“

Afhverju ert þú að taka þátt í áhugaleikhúsi?

„Þetta er bara svo ógeðslega gaman, félagsskapurinn og það er líka bara húsið, svo góður andi hérna inni. Leikfélagið er mjög duglegt að setja upp sýningar. Unglingadeildin er líka mjög virk. Það er fullt að gerast hér, námskeið fyrir krakka er að hefjast undir stjórn Guðnýjar og Höllu Karenar. Það er heilmikið líf í Frumleikhúsinu.“

Mega allir vera með?

„Það eru allir velkomnir að vera með okkur í leikfélaginu. Við erum á facebook með síðu og þar getur fólk haft samband við okkur ef það vill vera með. Það eru ekki allir sem vilja leika á sviði, sumir vilja vera með í búningagerð, förðun, hárgreiðslu, tæknideild, að smíða leikmynd, aðstoða við hitt og þetta, það er fullt sem þarf að gera fyrir hverja sýningu og það er mjög gaman að taka þátt, kynnast nýju fólki. Bara svo ótrúlega gaman að vera með.“

Rakel Halldórsdóttir, leikur í sýningunni:

Alltaf langað að vera með en aldrei þorað

„Þetta er í fyrsta skipti sem ég tek þátt hjá Leikfélagi Keflavíkur, mig hefur alltaf langað að vera með en aldrei þorað, verið hrædd við að byrja. Nú ákvað ég að láta óttann ekki stoppa mig. Mig hefur alltaf dreymt um að leika. Þetta er ótrúlega gaman, hefur farið fram úr væntingum. Það skemmtilegasta er að breyta til, gera eitthvað nýtt. Ég leik Tínu sem er tælenskur innflytjandi og er gift Eið. Þetta er bara svo fyndin sýning. Ótrúlegur misskilningur fer í gang út af einhverju smáræði. Leikstjórinn og fleiri í hópnum hjálpuðu mér að finna rétta hreiminn fyrir Tínu. Mér gekk vel að læra hlutverk mitt, ég las upp textann fyrir sjálfa mig og tók upp það sem ég las, svo hlustaði ég aftur og aftur á þessa upptöku. Þannig fannst mér best að læra textann minn. Mér var mjög vel tekið af öllum, hver nýr félagi er velkomin í Leikfélag Keflavíkur. Maður finnur hvað þetta er samstilltur hópur hjá Leikfélaginu en samt opinn gagnvart nýjum meðlimum. Mæli með þessu fyrir alla.“

Hulda Björk Stefánsdóttir, leikur í sýningunni:

Gleði að vera stjarna eina kvöldstund

„Sumir eru í golfi en ég er í leikhúsinu. Þetta er rosalega gefandi. Ég skora á alla að koma og prófa. Ég fæ ómælda gleði út úr þessu, maður fær að tjá sig og vera stjarna eina kvöldstund, ótrúlega skemmtilegt. Ég tók þátt í fyrsta sinn því dóttur minni langaði að taka þátt en það endaði á því að við allar þrjár, mæðgurnar, tókum þátt og ég hef verið hér síðan. Ég hélt ég væri feimin en ég er það ekki. Ég hef séð marga leikfélaga koma hérna inn og blómstra. Það er taumlaus gleði á æfingum og ég hvet alla til að prófa leiklist. Ef það eru prufur þá endilega að koma, láta ekkert stoppa sig. Bara það að mæta í prufur er stór sigur. Ég hef leikið alls konar hlutverk, yfirleitt í gamanhlutverki en ég bíð eftir að stíga á stokk í dramatísku hlutverki. Það er gaman þegar fólk kemur hingað inn, hlær saman eina kvöldstund og svo sér maður fólk fara út brosandi, það gefur líka helling. Þetta hlutverk sem ég leik í Fló á skinni er mjög skemmtilegt og ég fæ mikla útrás þegar ég leik þennan karakter. Það er mikil orka í þeirri sem ég er að leika.“

Karl Ágúst Úlfsson, leikstjóri sýningarinnar:

Hef ekki tekið eitt einasta reiðikast sem leikstjórum er ráðlagt

„Það gengur ótrúlega vel að leikstýra þessum hópi, alveg frábær hópur. Þetta fólk er bara svo skemmtilegt að ég hef ekki tekið eitt einasta reiðikast sem leikstjórum er ráðlagt að gera einu sinni á æfingatímabili en ég hef ekki fundið þörf á því, þau standa sig svo vel. Ánægjulegt í alla staði. Ég skynja að þetta fólk hefur unnið saman áður og vinnur vel saman. Þau eru góðir vinir, þetta er bara sæla, himnasæla. Ég finn marga og mikla stóra hæfileika í leikarahópnum hjá Leikfélagi Keflavíkur, þetta bara veltur frá þeim. Ég þarf ekki mikið að hafa fyrir þessu með þeim, margir eru þrautþjálfaðir. Það eru býsna margir góðir gamanleikarar í þessum hópi. Það er ekki öllum gefið að vera góður gamanleikari. Fólk getur blómstrað í leiklist, þetta er eitthvert skemmtilegasta hobbý í heimi. Við eigum að hlúa vel að áhugaleikhúsi og ánægjulegt að Reykjanesbær skuli styðja við þessa menningarstarfsemi.“

Jón Bjarni Ísaksson, leikur tvö hlutverk í sýningunni Fló á skinni:

Að hlusta á áhorfendur hlæja er ótrúlega gaman

„Þetta er svo ógeðslega gaman. Miðað við hvað okkur er búið að ganga vel undanfarin ár að fá fólk í leikhús þá er ég spenntur. Ég vona að fólk haldi áfram að koma í leikhús hér á Suðurnesjum. Okkur hefur gengið vel með þær sýningar sem við höfum boðið upp á. Dýrin í Hálsaskógi var mjög vinsæl og þaðan fórum við yfir í Mystery Boy sem fór í Þjóðleikhúsið. Þá fórum við Á trúnó með áhorfendum sem gekk allt rosalega vel. Svo nú þetta, Fló á skinni, og við erum alveg ótrúlega heppin að hafa fengið Karl Ágúst Úlfsson, sem leikstjóra sem er að gera frábæra hluti með okkur. Hann er einn af frægustu grínleikurum þjóðarinnar og það smitar í sýninguna okkar.“

Stefnirðu á atvinnuleikarann Jón Bjarni?

„Ég vissi alltaf síðan ég man eftir mér að ég vildi vera skapandi, skrifa, leika, allt saman. Ég er búinn að leika í mörg ár, byrjaði árið 2006 í Öskubusku og þetta hús hefur verið annað heimili mitt síðan þá. Jú, ég stefni á að verða atvinnuleikari og horfi á leiklistarnám erlendis. Það verður rosalega erfitt að skilja við Leikfélag Keflavíkur en ég vona að það komi fleiri og fleiri sem vilja vera með. Ég leik ekki alltaf aðalhlutverk en ég reyni eins og ég get að taka pláss á sviðinu. Það eru engin lítil hlutverk, bara litlir leikarar. Ég vil alltaf gera það besta við hlutverk mitt, þó svo það sé bara að labba þvert yfir sviðið og veifa, þá vil ég veifa betur en nokkur annar hefur gert. Í þessari sýningu er ég að leika aðeins meira en einn mann, get ekki sagt meir um það en annað hlutverkið sem ég leik er venjulegur maður. Það hef ég aldrei gert áður, ekki á leiksviði og heldur ekki í daglegu lífi. Ég nærist á hlátri og að hlusta á áhorfendur hlæja er ótrúlega gaman. Að taka þátt í áhugaleikfélagi er sjálfboðavinna og launin okkar eru þegar við heyrum að áhorfendur eru ánægðir út í sal. Klapp og hlátur. Já fyllum Frumleikhúsið!“