Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Fimmtudagur 15. júlí 1999 kl. 23:03

GLÆSILEGT GULLREGN Í GARÐI VIÐ GRENITEIG Í KEFLAVÍK!

Gullregnið við Greniteig 9 í Keflavík er glæsilegt og blómstrar nú sem aldrei fyrr. Á trénu eru gulir blómaklasar sem blómgast við góðar aðstæður. Þetta Gullregn gróðursetti Sigurður Einarsson fyrir rétt rúmum fjörtíu árum síðan. Gullregnið hans Sigurðar Einarssonar sem býr við Greniteig 9 í Keflavík skartaði öllu sínu fegursta nú í vikunni. Tréð er fjörtíu ára gamalt og hefur vaxið jafnt og þétt en aðeins í stuttan tíma sýna gulu blómin sig en þau eru einkenni Gullregnsins. Gullregnið blómstrar aðeins eftir gott sumar árið áður en í fyrra var veðurblíða og þess vegna stendur þetta stóra og mikla tré í blóma núna eftir að hafa safnað í sig orku í fyrra. „Blómin byrja að falla aftur á næstu dögum“, sagði Sigurður sem fagnaði 85 ára afmæli sl. laugardag. Hann hefur alla tíð haft hugann við garðinn því auk Gullregnsins eru tré um allt. Það má segja að bletturinn hjá Sigurði sé nánast skógur, svo þétt liggja trén. Og þegar komið er inn í garðinn fær fólk „útlands-tilfinningu“. Sigurður hefur enda þurft að passa upp á trén og fylgist grannt með vexti þeirra. Einu sinni í miklu norð-vestan roki fyrir nokkrum árum var bletturinn nánast allur á hreyfingu því trén tóku svo mikinn vind í sig og ræturnar fóru á fleygiferð. Sigurður þurfti að binda trén svo þau færu ekki niður. Hann hefur vegna allra trjánna verið í vandræðum með grasið á blettinum því trén loka nánst fyrir alla birtu og sól. Sigurður segist bera skeljasand á blettinn til að vinna á mosanum og birtuleysinu. Á einu af stóru Reynitré í garðinum vaxa reyniber og Sigurður sagði að Þrösturinn æti þau af bestu lyst. Skíturinn úr honum var síðan góður trjááburður og benti gamli maðurinn á þrjú lítil tré sem hefðu vaxið upp úr berjaskítnum. Það lá vel á gamla manninum þegar tíðindamaður VF leit við hjá honum í annað sinn á síðustu tíu árum og hefur Gullregnið vaxið mikið síðan.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024