Glæsilegir tónleikar Hljóma og Heimis
Áhorfendur voru ekki sviknir af tónleikum Hljóma og Karlakórsins Heimis sem fóru fram í Stapa á laugardag. Þar sungu sveitirnar saman og í sitthvoru lagi margar af helstu perlum Hljóma og Gunnars Þórðarsonar í bland við nokkur sígild dægur- og sönglög.
Húsfyllir var í Stapanum þar sem gestir nutu sín í hljómþýðum söng, en hápunkturinn var án efa þegar Engilbert Jensen og Óskar Pétursson, stórsöngvari og kynnir kvöldsins, sungu saman Bláu Augun Þín og allur salurinn tók undir.
Á sunnudag lauk tónleikaröð þeirra Hljóma og Heimis í Háskólabíói, en til stendur að halda fleiri tónleika á næstunni. Fyrst á Akureyri í byrjun næsta mánaðar.
VF-myndir/Þorgils