Glæsilegir píanótónleikar í Duus húsi
Laugardaginn 1. apríl voru haldnir píanótónleikar í Duus húsi en einn píanistanna er Keflvíkingurinn Sævar Jóhannsson. Hinir voru Eðvarð Egilsson og Pólverjinn Miro Kepinski.
Tónleikarnir voru þeir þriðju í tónleikaröð sem haldin var til heiðurs alþjóðalega píanódeginum, sem ber upp á áttugasta og áttunda degi ársins, 28. mars eða 29. mars á hlaupaári.
Tónleikarnir heppnuðust mjög vel en allir eru píanóleikararnir að semja sína eigin tónlist og gefa út. Það var Eðvarð sem settist fyrst við píanóið og flutti nokkur lög, því næst var það Pólverjinn Miro sem flutti eitt langt tónverk og heimamaðurinn Sævar lauk svo tónleikunum. Hann endaði á lagi sem hann mun gefa út í apríl en hann vantar ennþá nafn á gripinn og auglýsti eftir hugmyndum. Faðir Sævars, stórsöngvarinn Jóhann Smári Sævarsson var fljótur að slá á léttu strengina og stakk upp á nafninu „Pabbi“.
Píanistarnir fengu standandi lófatak í lokin og var mjög góður rómur gerður að frammistöðu þeirra.
Sævar Jóhannsson við píanóið.