Glæsileg Guðríðarsýning í Íslendingi
Frumsýningargestir upplifðu sannan Víkingaanda þegar einleikurinn Ferðir Guðríðar eftir Brynju Benediktsdóttur í leikstjórn Maríu Ellingsen var frumsýnd í Víkingaheimum í gærkvöldi. Leikkonan Þórunn Clausen fór á kostum í hlutverki Guðríðar en leiksviðið var sjálft víkingaskipið Íslendingur.
Gestir upplifa Guðríðarsögu um borð í Íslendingi sem tekur um 50 manns í sæti en þeir fara í ferðlag með Guðríði sem gengur um skipið og hún segir sögu sína sem hefst á ferðalagi frá Íslandi vestur um haf og endum á suðurgöngu Guðríðar, þar sem hún hittir páfann í Róm. Sagan myndar ramma um sögu konu í hættulegum heimi, sögu um þann sem þorir að fara óhefðbundnar leiðir og taka á þeim sorgum og sigrum sem því fylgir.?
Að leikhúsinu standa feðgarnir Einar Benediktsson og Pétur Einarsson og fleiri sem sáu fyrir sér að um borð í víkingaskipinu Íslendingi sem Víkingarheimar eru byggðir í kringum væri upplagt að leika sögur víkingana og efla þannig menningatengda ferðamennsku á staðnum.?
Steinþór Jónsson hjá Víkingaheimum var mjög ánægður með sýninguna og afhenti leikkonunni blómvönd í lok sýningarinnar og þakkaði þátttakendum og forsvarsmönnum hennar fyrir glæsilegt framlag á þessum óvanalega en skemmtilega stað, nýjasta leikhúsi Suðurnesjamanna.
Auk Þórunnar í hlutverki Guðríðar hannar Snorri Freyr Hilmarsson leikmynd, Björn B. Guðmundsson sér um lýsingu og Fillippía Elíasdóttir hannar búninga.
Næsta sýning er í kvöld en síðar verða fleiri sýningar allar helgar í sumar.
VF-myndir/Páll Ketilsson.
--
--
--
--