Glæpavettvangur á bókasafninu

Lögreglumaðurinn Níels Hermannsson hleypti hátt í 60 gestum inn á afgirt svæði þar sem dagskráin fór fram. Lögreglan í Keflavík tók virkan þátt í dagskránni enda þema ársins kjörið til þess. Rannsóknardeild lögreglunnar hefur sett upp glæpavettvang á bókasafninu, ásamt sýningu á tólum og tækjum, og mun sýningin standa út vikuna, að laugardeginum meðtöldum.
Dagskráin hófst með því að leikkonan Christine Carr las kafla úr grafarþögn og Sigurður Guðmundsson tónlistarmaður flutti spennuþrungna tónlist með glæpaívafi. Þá flutti Kristján Ingi Kristjánsson starfsmaður ofbeldisbrotadeildar Lögreglunnar í Reykjavík erundi um glæpi í nútíð og fortíð, með vísan í Íslendingasögurnar.
Að lokum fengu gestir nýjustu spennubækurnar með sér heim og gat því haldið áfram í glæpadagskránni langt fram á nótt.
Meðfylgjandi mynd sýnir gamla rannsóknartösku frá rannsóknarlögreglunni sem meðal annarra muna er til sýnis í bókasafnavikunni.