Gjöfin fyrir konuna oft keypt á síðustu stundu
Magnús Stefánsson bæjarstjóri í Garðinum í jólaspjalli
Magnús Stefánsson bæjarstjóri í Garðinum snæðir yfirleitt kalkún á aðfangadag með fjölskyldunni. Hann er frekar vanafastur yfir hátíðarnar og fær sér t.a.m. alltaf skötu í góðra vina hópi á Þorláksmessu. Lagið Er líða fer að jólum, með Ragga Bjarna, kemur bæjarstjóranum söngglaða alltaf í jólaskapið.
Eru einhverjar hefðir hjá ykkur á bæjarskrifstofunni þegar kemur að jólunum?
Bæjarskrifstofan er skreytt áður en aðventa gengur í garð. Starfsfólkið kemur saman og borðar jólamat í aðdraganda jólanna.
Hvernig eru jólahefðir hjá þér?
Jólahefðir eru ýmsar. Skreytingar á húsi, rölt um Laugaveginn á Þorláksmessukvöld, yfirleitt hef ég reykt hangilæri hangandi í eldhúsinu fyrir jól og við fáum okkur flís af kjöti af og til. Síðan eru ýmsar hefðir á aðfangadag. Síðan er fastur liður að borða hangikjöt hjá tengdamömmu á jóladag.
Hver er besta jólamyndin?
Gamla Dickens sagan um Skrögg er mjög klassísk og góð.
Hvaða lag kemur þér í jólaskap?
Raggi Bjarna, Er líða fer að jólum.
Ertu vanafastur um jólin, eitthvað sem þú gerir alltaf?
Ég er mjög vanafastur um jólin. Fyrir utan aðfangadag (sjá að neðan), þá er bókalestur og samvera með sem flestum í fjölskyldunni. Oftast fer ég í jólamessu og horfi á hátíðarmessu í sjónvarpi.
Hvernig er aðfangadagur hjá þér?
Það er alltaf heimabakað brauð og hangikjöt á borðum um hádegi á aðfangadag. Eftir það förum við feðgar og látum ljós á leiði forferðra og -mæðra í kirkjugarðinum. Fjölskyldan borðar síðan saman og eftir það eru opnaðar jólagjafir, það er framkvæmt eftir föstum hefðum. Oft fer ég í messu á aðfangadag.
Eftirminnilegasta jólagjöf sem þú hefur fengið?
Margar góðar og eftirminnilegar jólagjafir gegnum tíðina. Líklega er það þó rafmagnsbílabrautin sem ég fékk í jólagjöf þegar ég var 10-11 ára sem er eftirminnilegust.
Hvað er í matinn á aðfangadag?
Við höfum yfirleitt kalkún í matinn á aðfangadagskvöld.
Eftirminnilegustu jólin?
Ætli eftirminnilegustu jólin séu ekki þegar ég var rúmlega tvítugur og var einn í Reykjavík vegna þess að ég var mikið að spila með Upplyftingu um þau jól. Það er eftirminnilegt að hafa verið einn á aðfangadagskvöld og öll fjölskyldan var vestur í Ólafsvík.
Hvað langar þig í jólagjöf?
Góð bók er alltaf sígild.
Borðar þú skötu?
Já ég borða skötu tvisvar á ári. Annars vegar þegar haldin er skötumessa í Garðinum á Þorláksmessu að sumri. Síðan borða ég alltaf skötu í góðra vina hópi á Þorláksmessu fyrir jól. Það er órjúfanlegur hluti í aðdraganda jóla.
Eru einhverjar hefðir í kringum Þorláksmessu hjá þér?
Borða skötu í hádeginu, síðan höfum við nú í mörg ár farið í bæinn og rölt um Laugaveginn á Þorláksmessukvöld. Lengi vel var ég á síðustu stundu með að kaupa jólagjöf fyrir konuna og gerði það gjarnan á Þorláksmessu, kannski verður það þannig líka í ár!