Gítartónleikar Tónlistarskóla Reykjanesbæjar
Tónlistarskóli Reykjanesbæjar er að fá í heimsókn hóp gítarnemenda frá Spáni ásamt kennurum þeirra. Nemendurnir eru frá Escola Luthier d´Arts Musicals, tónlistarskólanum í Barcelona og frá Escola Musica tónlistarskólanum í Vall de Tenes sem er bær í nágrenni Barcelona. Spönsku gítarnemendurnir eru hingað komnir til að hitta gítarnemendur Tónlistarskóla Reykjanesbæjar, æfa og halda með þeim tónleika og skoða sig um í Reykjanesbæ og á Reykjanesi.
Gítarnemendur Tónlistarskóla Reykjanesbæjar fóru í tónleikaferð til Barcelona fyrir um einu og hálfu ári síðan, ásamt nemendum úr Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar í Reykjavík og héldu tónleika með þessum nemendum sem nú eru sem sagt hingað komnir í sömu erindagjörðum.
Spönsku gítarnemendurnir mynda tvo samspilshópa og munu þeir halda tónleika í tveimur af grunnskólum Reykjanesbæjar á morgun föstudaginn 4. mars. Síðar þann dag eða kl. 18, verða tónleikar í Stapa, Hljómahöllinni, þar sem fram koma spönsku gítarsamspilshóparnir ásamt tveimur gítarsamspilshópum frá Tónlistarskóla Reykjanesbæjar.
Efnisskráin er afar glæsileg og athyglisverð.
Aðgangur er ókeypis og allir hjartanlega velkomnir.