Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Giftusamlegum sjómannsferli lokið
Sunnudagur 2. júní 2024 kl. 06:08

Giftusamlegum sjómannsferli lokið

Mun geta gengið nokkur skref frá nýja heimilinu um borð í bátinn sinn. Flutti frá Grindavík til Bíldudals.

Haraldur Einarsson lauk flottum sjómannsferli á dögunum sem spannaði nánast allan ævialdurinn en Haraldur er fæddur árið 1954. Hann fór í stýrimannaskólann og hefur síðan þá mestum verið skipstjóri en stundum leyst af sem stýrimaður líka. Síðan 1996 réri hann fyrir Vísi hf. í Grindavík og lauk sjómannsferlinum á Sighvati. Vegna jarðhræringanna er hann fluttur til Bíldudals og býr spölkorn frá sjónum, Haraldur gerir ráð fyrir að kaupa sér bát svo hann geti hið minnsta róið sér til fiskjar.

Faðir Haraldar, Einar Kristinn Haraldsson, er 91 árs gamall og væri ekki fyrir ástandið í Grindavík, væri hann sjálfsagt ennþá að stunda strandveiði en blaðamaður skellti sér í róður með þeim gamla í fyrra. Það var snemma ljóst hvaða slóð Haraldur myndi feta á starfsbrautinni. Hann verður sjötugur 31. maí og hefur lokið sjómannsferlinum og er sestur að í Bíldudal.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Á sjóinn átján ára

„Ég var ekki gamall þegar ég vissi að ég yrði sjómaður. Ég var eitthvað búinn að prófa en réði mig þó ekki í fast pláss fyrr en 1972 þegar ég var átján ára gamall. Þetta var á Hópsnesinu og var Eðvarð Júlíusson skipstjóri. Ég fór í Stýrimannaskólann ´74 þegar ég var orðinn tvítugur og kláraði tvö stigin eins og algengast var þá, þ.e. tók ekki farmanninn. Árið 1978 varð ég fyrst skipstjóri, var þá með Hrafn Sveinbjarnarson og var með hann í tíu ár. Eftir það var ég með Eldeyjarboða í nokkur ár, bæði á balalínu og snurvoð. Ég byrjaði svo hjá Vísi hausið ´96, var bæði stýrimaður og leysti af sem skipstjóri, byrjaði á Hrugni og var frá 2005 á Jóhönnu Gísladóttur, var búinn að vera skipstjóri á henni síðan 2015 og fór svo yfir á Sighvat þegar Jóhanna var seld, og endaði farsælan sjómannsferil á því góða skipi.

Ef þú spyrð mig hvað sé eftirminnilegast, á ég nú ekki svo gott með að rifja það upp en man eftir einum sjávarháska sem ég lenti í en þó fór skip sem ég var með á hliðina. Við vorum á síld í Síldarsmugunni en skipið náði að fljóta alla leið í land. Þetta kom ekki til vegna veðurs, við vorum að fá síld frá Berki sem var búinn að fylla en þunginn á barkanum var það mikill að við fórum á hliðina og talsvert af sjó fór ofan í lestina. Ég lét strax loka öllum lúgum og þetta slapp, stöðugleikinn í skipinu var greinilega í góðu lagi en hann náði ekki að rétta sig, flaut samt sem betur fer alla leið í höfn og þetta bjargaðist.“

Bíldudalur

Haraldur hafði búið alla sína hunds- og kattartíð í Grindavík en þurfti eins og aðrir að yfirgefa staðinn. Hann var ekki að hugsa sér til hreyfings en við þessar hamfarir ákváðu hann og Ásta Björk Hermannsdóttir, kona hans, að venda kvæði sínu í kross og fluttu á Bíldudal. Það þyrfti ekki að koma á óvart ef Haraldur verður búinn að kaupa sér bát áður en langt um líður svo hann geti veitt sér í soðið og hver veit nema hann eigi eftir að feta í fótspor pabba síns og stunda strandveiðina.

„Ég hef lengi haft góða tilfinningu fyrir Vestfjörðunum, ég var mikið á rækju fyrir vestan í gamla daga. Þetta er æðsilegur staður að vera á yfir sumarið. Við keyptum okkur fallegt hús niður við sjó, það myndi taka mig hálfa mínútu að labba frá nýja heimilinu að bryggjunni og eigum við ekki að segja að draumurinn sé að eignast lítinn bát svo ég geti róið mér til fiskjar. Ég var ekkert að spá í að fara á strandveiðina í sumar, ég ætla bara að njóta þess að vera kominn á eftirlaun en hver veit nema ég nýti mér strandveiðikerfið einhvern tíma eins og pabbi gerði. Hvort ég muni ná að stunda sjómennskuna fram að níræðu eins og hann getur veit maður auðvitað ekki núna, ég er ekki farinn að hugsa svo langt. Ég ætla bara að njóta mín hér á nýja staðnum, svo sér maður bara til,“ sagði Haddi að lokum.