Getur lesið hvar sem er
Lesandi vikunnar í Bókasafni Reykjanesbæjar
Valgerður Björk Pálsdóttir er framkvæmdastjóri Bjartrar framtíðar og Lesandi vikunnar að þessu sinni. Valgerður les einna helst sögulegar skáldsögur og er rithöfundurinn Haruki Murakami í miklu uppáhaldi.
Hvaða bók ertu að lesa núna?
A little life eftir Hanya Yanagihara. Ég les yfirleitt ekki svona langar bækur en þetta er 700 blaðsíðna bók, svakalega vel skrifuð „coming of age“ saga. Hún hefur vakið hjá mér sterkar tilfinningar. Ég hef grátið þrisvar sinnum, verið líkamlega illt yfir hrikalegum frásögnum af ofbeldi og líka fengið fiðring í magann yfir óvæntri ástarsögu sem er svo falleg og erfið á sama tíma. Ég var annars að klára virkilega áhrifaríka, erfiða og ótrúlega vel skrifaða bók bók Þórdísar Elvu Þorvaldsdóttur; Handan fyrirgefningarinnar. Mæli með henni fyrir alla til þess að skilja betur afleiðingar kynferðisobeldis, nauðgunarmenningu og máttinn til að fyrirgefa.
Hver er þín eftirlætis bók?
Norwegian Wood eftir Haruki Murakami. Þetta er svona bók sem ég get alls ekki sagt neinum um hvað hún er því ég hreinlega man það ekki. Eina sem ég man er hversu mikil áhrif hún hafði á mig, aðallega vegna frásagnarstíls Murakami sem ég heillaðist af og las flestar bækurnar hans í kjölfarið.
Hver er eftirlætis höfundurinn þinn?
Ég á ekki marga höfunda sem ég verð að lesa allt eftir en þeir sem komast næst eru Haruki Murakami, Steinunn Sigurðardóttir og Khaled Hosseini.
Hvernig tegundir bóka lestu helst?
Ég leita mest í sögulegar skáldsögur. Mér finnst svo gaman að komast inn í annan heim þegar ég les, en les samt aldrei ævintýrasögur eða vísindaskáldskap. Mér finnst meira spennandi að komast í huganum til Rússlands þegar Sovétríkin voru að liðast í sundur, til Reykjavíkur á seinni hluta 19. aldar eða Suðurríkja Bandaríkjanna um miðja 20.öld.
Hvaða bók hefur haft mest áhrif á þig?
Eyðimerkurblómið eftir Waris Dirie. Það er saga sómalskrar baráttukonu gegn umskurði kvenna. Ég las hana 14 ára gömul, í sjokki, og varð í kjölfarið femínisti.
Hvaða bók ættu allir að lesa?
How I became the mayor of a large city in Iceland and changed the world eftir Jón Gnarr.
Hvar finnst þér best að lesa?
Hvar sem er. Við eldhúsborðið með kaffibolla, í sófanum, uppí bústað, í flugvél, í lest. Eða jafnvel meðal fólks á meðan það er spjallað eða horft á sjónvarpið.
Hvaða bækur standa upp úr sem þú mælir með fyrir aðra lesendur?
Bækurnar hans Haruki Murakami. Frásagnarstíll og karaktersköpun hans er svo hrífandi.
Ef þú værir föst á eyðieyju og mættir velja eina bók til að hafa hjá þér, hvaða bók yrði fyrir valinu?
Það ætti að vera bók sem maður væri til í að lesa oftar en einu sinni. Ég get ekki lesið erfiðar bækur oftar en einu sinni þannig að ég held að ég myndi taka bestu „skvísubókina“ sem ég hef lesið, en þær eru ekki margar sem sitja eftir hjá mér. Korter eftir Sólveigu Jónsdóttur gerði það hins vegar.
Hvað gerðir þú í sumar?
Gæsun, brúðkaup, Pólland, aðlögun tvíbura hjá dagmömmu, vinna og pólitík. Já og auðvitað lestur, sem ég hef gert heilmikið af í inniveðrinu í sumar.
Bókasafn Reykjanesbæjar er opið alla virka daga frá klukkan 09-18 og á laugardögum frá klukkan 11 til 17. Rafbókasafnið er alltaf opið en nánari upplýsingar á heimasíðu safnsins. Á heimasíðu safnsins er hægt að mæla með Lesanda vikunnar.