Gettu betur lið FS: „Höfum ekki reynsluna þetta árið“
FS-ingar vikunnar að þessu sinni eru strákar sem kepptu fyrir hönd Fjölbrautaskóla Suðurnesja í spurningakeppninni Gettu betur. Haldið var inntökupróf þar sem 24 nemendur spreyttu sig en aðeins þrír komast í liðið.
Hinrik Hafsteinsson er 16 ára nýnemi við skólann og kemur úr Reykjanesbæ. Haraldur Jónsson er 17 ára nemi á öðru ári við skólann og kemur frá Tálknafirði en hefur búið í Reykjanesbæ síðustu ár. Sá þriðji er Guðni Friðrik Oddsson, 17 ára og hefur alla sína tíð búið í Reykjanesbæ. Þessir þrír strákar kepptu í spurningakeppninni Gettu betur en þeir féllu úr keppni í 16 liða úrslitum á móti Fjölbrautaskólanum í Garðabæ. Strákarnir voru einu skrefi frá því að komast í sjónvarpið en Gettu betur hefur verið einn af vinsælli dagskrárliðum RÚV síðustu árin.
„Við kepptum fyrst við Fjölbrautaskólann við Ármúla og unnum þá keppni nokkuð örugglega 16-6. Svo fengum við lið Fjölbrautaskólans í Garðabæ sem var okkur erfitt og töpuðum við þeirri keppni með fjórum stigum,“ sögðu strákarnir aðspurðir hvernig hefði gengið í keppninni.
Gettu betur er talin mjög erfið spurningakeppni og þurfa liðin því að undirbúa sig mjög vel. „Þetta er mjög mikill lestur út í eitt en ætli það fari ekki um átta tímar á dag í æfingar og svona 12 til 13 tímar um helgar. Þjálfarinn okkar, Pétur Elíasson, hefur einnig keppt fyrir hönd skólans og hjálpaði hann okkur mikið,“ sögðu strákarnir. „Við eyddum mestum tíma í húsnæði Virkjunar mannauðs á Suðurnesjum og viljum við þakka Gunnari Halldóri Gunnarssyni fyrir hjálpina.“
Strákarnir tóku fyrir keppnina eina æfingakeppni við lið kennara FS sem skipað var Guðmanni Kristþórssyni bókasafnsfræðingi, Þorvaldi Sigurðssyni íslenskukennara og Ægi Karli Ægissyni sálfræðikennara. Sú keppni var heldur betur spennandi en hún fór í bráðabana og endaði með sigri nemenda, 25-24 eftir svakalegan lokasprett.
„Við erum allir nýliðar í þessari keppni og höfum við sennilega ekki reynsluna sem þarf en við munum klárlega stefna hátt í næstu keppni,“ sögðu strákarnir að lokum.