Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Gersemar í bílskúrum í Vogum
Þriðjudagur 20. september 2016 kl. 08:00

Gersemar í bílskúrum í Vogum

Í Vogum á Vatnsleysuströnd er karlaklúbbur sem fundar vikulega á fimmtudögum í gömlu björgunarstöðinni. Félagsmenn eru á öllum aldri, sá yngsti um þrítugt og sá elsti um áttrætt. Þeir eiga sér eitt sameiginlegt áhugamál, vélknúin farartæki.

Félagsskapurinn kallast Vélavinir í Vogum og varð til fyrir fjórum árum. Lítill hópur hafði verið að hittast á kaffistofu í fyrirtæki í Vogum þar sem umræðan var oftar en ekki bílar og það sem er að finna undir vélarhlífinni. Úr varð að ákveðið var að koma á föstum fundartíma síðasta fimmtudag í mánuði. Það fjölgaði hratt í hópnum og mönnum fannst einn fundur í mánuði ekki vera nóg. Það var því ákveðið að funda vikulega. Hópurinn leitaði til sveitarfélagsins og fékk inni í gömlu björgunarstöðinni við hlið grunnskólans en það húsnæði stóð autt og yfirgefið. Húsið hefur verið tekið í gegn innandyra og rætt hefur verið um að ráðast í lagfæringar á því utanhúss.



Vélavinir hafa vakið athygli þegar árleg fjölskylduhátíð er haldin í Vogum um miðjan ágúst. Þar mæta félagsmenn með bílaflotann sinn og hafa til sýnis. Þá hafa Vélavinir smíðað „járnbrautarlest“ sem samanstendur af togvagni og nokkrum farþegavögnum. Togvagninn er gerður úr gömlum sláttutraktor og vagnarnir úr olíutunnum sem síðan hafa verið skreyttir með vinsælum fígúrum.

Þegar Víkurfréttir tóku hús á Vélavinum í Vogum á dögunum voru þeir að ganga frá eftir fjölskyldudagana. Lestin var komin í geymslu upp á vegg fyrir veturinn og menn voru að velta fyrir sér amerískum dreka sem stóð inni á gólfi. Einn félagsmanna Vélavina hafði verið að kaupa drekann en ýmislegt á eftir að gera fyrir bílinn áður en hann fer út í umferðina.



Þar sem hópurinn stóð yfir ameríska drekanum barst skyndilega verkefni. Gamall Farmall Cub sem stóð fyrir utan félagsheimilið neitaði að fara í gang. Sérfræðingar í hópnum skoðuðu gripinn og ákveðið var að ýta honum í gang. Þar sem hópurinn var kominn út úr húsi þá hófst sögustund á bílastæðinu, vélarhlífar voru rifnar upp og við blöstu glansandi mótorar og greinilegt að mikil natni er lögð í hlutina.

Vélavinir í Vogum eru hógværðin uppmáluð. Þegar blaðamaður Víkurfrétta ræddi við þá um þeirra tæki voru svörin yfirleitt á þá leið að þetta væri nú ekkert merkilegt. Það var þó úr að blaðamaður ákvað að taka hús á nokkrum félagsmönnum nokkrum dögum síðar. Allir eiga þeir það sameiginlegt að búa við Hólagötu í Vogum.

Einar Birgisson veitir Vélavinum í Vogum formennsku um þessar mundir. Hann er einn þeirra sem búa við Hólagötuna. Hann er með bílskúrinn fullan af bílum, sem eru í ýmsu ásigkomulagi. Í skúrnum er meðal annars fyrsti bíllinn sem Einar eignaðist, Barracuta árgerð 1969. Hann eignaðist bílinn fyrst fyrir margt löngu en segist í samtali við blaðamann hafa átt bílinn alltof stutt þá. Hann hafi varla átt fyrir bensíni á bílinn á sínum tíma og þegar skiptingin hafi hrunið tvisvar seldi hann bílinn. Einar segist hafa séð eftir því og í framhaldinu lagt mikla vinnu í að finna bílinn aftur og eignast hann að nýju.



Einar var búinn að taka flotann sinn út úr skúrnum þegar blaðamaður kom í heimsókn, enda sól í heiði og dagur til að viðra fallega bíla. Þarna voru Chrysler New Yorker, Ford Bronco og Chevrolet Van. Einar segist ekki hafa mikið af lausafé og því reyni hann að eignast sína bíla fyrir lítið og leggi frekar á sig meiri vinnu við að endurbyggja bílana. Hann viðurkennir að sumir bílarnir hafi komið til hans í slæmu ástandi og oft í mörgum kössum.

Misjafnlega gengur að nálgast varahluti. Alla varahluti sé hægt að fá í Bronco meðan lítið sé til í bíla eins og Chrysler New Yorker. Netið og samfélög þar auðveldi hins vegar leitina í dag að varahlutum.



Í þar næsta húsi við Einar á Hólagötunni býr Anton Númi Magnússon. Hann er fyrrverandi pípulagningamaður en ver nú öllum stundum í bílskúrnum við að endurbyggja traktora. Traktorarnir hjá Antoni eru mikil listasmíð og útlitið á þeim er eins og þeir séu nýir úr kassanum frá verksmiðju. Hann segist líka vilja komast eins nálægt upprunalegu útliti og áferð og mögulegt er.

Anton segist ekki vera mikill tölvumaður og fær vin sinn til að panta þá varahluti sem þarf af netinu. Auðvelt sé að nálgast varahluti í traktorana. Nú er Anton að gera upp árgerð 1956 af Deutz og innar í skúrnum Farmall Cub sem er tilbúinn. „Ég myndi setja hann í gang fyrir þig ef brunaviðvörunarkerfið í húsinu færi ekki í gang,“ segir Anton og brosir. Hann segist hafa gert upp 4 til 5 traktora frá grunni en ætlar nú að fara segja þetta gott.



Í innkeyrslunni við heimili Antons stendur Chevrolet Blazer s10 Sport árgerð 1987. Sá bíll er sagður eiga mikla sögu en hefur gengið í gegnum mikla endurnýjun. Bíllinn var áður í eigu Landsbanka Íslands og tengist grænum baunum og Steingrími Hermannssyni. Í dag hefur Blazernum verið breytt í pallbíl.



 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Vélavinir í Vogum