Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

  • Gerir Ísland að betri stað fyrir sig og sína
    Dagný Halla framkvæmir þær breytingar sem hún vill sjá í samfélaginu.
  • Gerir Ísland að betri stað fyrir sig og sína
    Dagný ásamt ungum Pírötum.
Sunnudagur 2. apríl 2017 kl. 06:00

Gerir Ísland að betri stað fyrir sig og sína

Hin 16 ára Dagný Halla stofnaði ungliðahreyfingu Pírata á Suðurnesjum

Dagný Halla Ágústsdóttir er 16 ára Keflavíkingur sem hefur lengi haft áhuga á pólitík. Í nóvember síðastliðnum stofnaði hún ungliðahreyfingu Pírata á Suðurnesjum fyrir fólk á aldrinum 16 til 35 ára. „Fyrir mér er pólitík dyr að breytingum. Pólitík snertir öll mál; hvort þú megir ganga í skóla, hvað þú megir gera við líkama þinn og hvernig samfélagið almennt er. Ég er ekki sátt með það hvernig heimurinn er í dag,” segir hún.

Aðspurð af hverju Dagný taki þátt í pólitík segist hún gera það til að framkvæma þær breytingar sem hún vilji sjá gerast í samfélaginu. „Ég vil vera sú persóna sem ég hefði geta litið upp til áður. Svo er þetta líka bara svo ótrúlega gaman þegar þú lærir inn á allt.”

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Þátttaka ungs fólks í pólitík hefur ekki verið mikil og kjörsókn aldrei verið minni og telur Dagný ungt fólk ekki skilja sitt eigið vald. „Ég vissi ekki að ég gæti tekið þátt í að móta stefnur stjórnmálaflokks sem gætu í raun seinna orðið efni í alþingisfrumvörp, bara með því að mæta á fund. Ég vissi ekki að ég gæti stofnað ungliðahreyfingu stjórnmálaflokks á innan við viku. Ég hafði ekki hugmynd. Eins finnst mér margir vanmeta atkvæðarétt sinn. Um það bil helmingur Bandaríkjamanna mæta ekki á kjörstað vegna þess að þeir trúa því að þeirra atkvæði skipti ekki máli. Ég vona innilega að þróunin verði ekki svona á Íslandi og að stjórnmál verði ennþá aðgengileg.”

Að mati Dagnýjar vantar klárlega fleira ungt fólk í pólitík og finnst henni það hafa verið bælt niður. „Ég myndi ráðleggja ungu fólki að láta bara vaða. Mæta á fundi, bæta stjórnmálafólki við á vinalistann á Facebook og fylgjast með viðburðum á síðum flokkanna. Það er ótrúlega mikið og fjölbreytt stjórnmálastarf í boði og flestir stærstu flokkarnir eru með ungliðahreyfingu, en ef ekki er ekkert mál að taka sig bara til og stofna hana sjálfur. Þetta er skrýtið og flókið fyrst. Þá ert þú til dæmis í herbergi með ókunnugu, fullorðnu fólki sem notar fullt af hugtökum sem þú kannast ekki við en svo kemur þetta smátt og smátt. Þú kynnist frábæru fólki. Kláru og menntuðu fólki, uppreisnarseggjum, þingmönnum og aktívistum. Þú tekur þátt í að gera Ísland að betri stað fyrir þig og þína og það er það sem mér finnst best við stjórnmál.”

[email protected]