Gengið á vatni í Bláa Lóninu
– DJ Margeir og gestir með tónleika á Jónsmessukvöldi
Þriðji tónlistardiskur Bláa lónsins, Blue Lagoon soundtrack 3, kemur út á Jónsmessu en hann er hugarsmíð DJ Margeirs sem sá um lagaval og hljóðblöndun. Í tilefni af útgáfu hans verða haldnir einstakir kvöldtónleikar á Jónsmessu, þriðjudaginn 24. júní, í Bláa lóninu. Lónið og umhverfi þess hefur síðustu ár verið nýtt sem tónlistarvettvangur við sérstök tækifæri en þessir tónleikar DJ Margeirs og félaga munu eiga sér algjöra sérstöðu í sögu Lónsins. Tónleikarnir fara fram í sjálfu lóninu, þar sem sviðið verður að hluta til ofan í vatninu. Þetta er í fyrsta sinn sem Bláa Lónið hefur haldið tónleika með þessu sniði.
Samstarf Bláa Lónsins og DJ Margeirs á sér langa sögu. Fyrri tveir diskarnir hafa notið mikilla vinsælda og eru í dag ófáanlegir.
Ásamt DJ Margeir koma fram hljómsveitin Gluteus Maximus með Högna Egilssyni, Daníel Ágúst og Ásdísi Maríu Viðarsdóttur. Einnig mun rafsveit Ólafs Arnalds og Janusar úr Bloodgroup, Kiasmos stíga á stokk. Tónleikarnir hefjast kl. 22 að kvöldi Jónsmessu og standa til miðnættis. Innifalið í miðaverði, 3.500 kr, er aðgangur í Bláa Lónið og má nálgast miða á midi.is.