Geislaglóð í Ytri-Njarðvíkurkirkju
Mánudaginn 3. júlí logaði tónlist allt um kring í Ytri-Njarðvíkurkirkju þar sem söngvararnir Svafa Þórhallsdóttir og Cesar Alonzo Barrera ásamt píanóleikaranum Galya Kolarova fóru á kostum.
Tónlistarfólkið hreif áheyrendur er hlustuðu sem í leiðslu. Gullfallegar raddir þeirra Svöfu og Cesar bræddu hjörtu áheyrenda og undirleikur Galya stórkostlegur svo það var „engin leið að hætta“ – áheyrendur vildu meira að heyra. Tónlistin töfraði fram gleði sem skein úr hverju andliti og jók á sælu sumarkvöldsins. Flutt voru íslensk og norsk sönglög ásamt þekktum aríum og dúettum. Flutningur tónlistarfólksins var svo töfrandi að geislar sólu tóku undir hverja nótu, hvern tón. Frábær flutningur. Listamennirnir þrír sýna að tónlist sameinar þjóðir en þau eru fulltrúar þriggja landa; Íslands, Venesúela og Búlgaríu. Eskfirðingar geta hlakkað til en þangað liggur leiðin frá Suðurnesjum.