Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Geimsteinn í Liverpool
Laugardagur 19. mars 2011 kl. 13:34

Geimsteinn í Liverpool

Geimsteinn, elsta starfandi útgáfufyrirtæki landsins, hélt í víking á dögunum. Förinni var heitið í vöggu rokktónlistar í Evrópu, sjálfrar Bítlaborgarinnar Liverpool í hámenningarferð. Víkurfréttir náðu í taglið á yngsta og hressasta starfsmanni útgáfunnar, Björgvini Ívari Baldurssyni og fengum ferðasöguna beint í æð.

Með í förinni voru synir Rúnars Júlíussonar og makar þeirra, Björgvin Ívar sonarsonur Rúnars og María Baldursdóttir ekkja rokkgoðsins. Farið var fyrstu helgina í mars og var ætlunin að njóta borgarinnar, heimsækja Bítlaslóðir og enda svo herlegheitin á leik Liverpool og Manchester United í ensku úrvalsdeildinni. Kvenpeningurinn verslaði svo frá sér allt vit á meðan að sögn Björgvins.

Aðspurður um hvort ferðin hefði verðið lengi á teikniborðinu sagði Björgvin: „Bæði og verð ég að segja. Geimsteinn er mikið hugsjónar apparat þar sem starfsmenn fá ekki há laun greidd út um hver mánaðarmót en þegar vel gengur er um að gera að láta vel að þeim sem standi að tjaldabaki. Utanlandaferð er tilvalin í það, þar sem við fjölskyldan gátum farið saman og haft það notalegt.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Björgvin ásamt Baldri föður sínum á Bítlasafninu


Af hverju Liverpool?

„Enginn áfangastaður er meira viðeigandi en vinaborg rokkins, sjálf Liverpool, í ferð fyrir starfsmenn Geimsteins. Slóðir Bítlanna og fótbolti er eitthvað sem við erum hrifnir af.“

Ert þú sjálfur mikill aðdáandi Bítlanna?

„Já klárlega. Ég er þó ekki manískur eins og margir en ég ber mikla virðingu fyrir þessum lagasmíðum. Að geta samið hundruði laga í hæsta gæðaflokki er bara fáránlegt,“ segir Björgvin um aðdáun sína á Bítlunum.

Tæki Liverpool fram yfir London

„Ég er mjög hrifinn af Liverpool. Hún kom mér satt að segja mjög mikið á óvart. Ég tæki hana fram yfir London alveg hiklaust. Gömlu steinhlöðnu byggingarnar fá ennþá að njóta sín með nýja gler og steypu arkitektúrnum sem er mjög hressandi. Hún er virkilega falleg og skemmtileg og þetta Liverpool One er virkilega vel heppnað apparat,“ sagði Björgvin um hina sögufrægu borg.

Höldum allir með sitthvoru liðinu


Þegar talið barst að knattspyrnuleiknum milli Liverpool og erkifjendanna frá Manchester var augljóst að leikurinn var hin mesta skemmtun. „Hann var mjög skemmtilegur. Við fórum þrír, ég, pabbi og Júlíus Freyr sem er mjög skemmtileg blanda þar sem ég er Chelsea maður, pabbi United og Júlli Liverpool aðdáandi. Ég og Júlli vorum þess vegna hvað kátastir með úrslitin en pabbi ekki svo mikið. En stemmingin var alveg ólýsanleg og þegar að Kuyt setti þriðja markið var eins og sprengju hefði verið varpað á völlinn í miðjum jarðskjálfta, svo mikill var hristingurinn og lætin.“


Ein frægustu gleraugu allra tíma eru á Bítlasafninu


Bretarnir kasta snemma inn handklæðinu

Hefðbundnu ferðamannastaðirnir voru líka heimsóttir í ferðinni. „Já við fórum í Bítlasafnið, þar er hægt að gleyma sér í marga klukkutíma og maður þyrfti helst að fara nokkrum sinnum til að ná að sía allar þessar upplýsingar almennilega inn. Þar fengum við líka margar góðar hugmyndir fyrir safnið okkar, Rokkheim Rúnars Júl. Svo kíktum við á Cavern klúbbinn þar sem við rétt misstum af því að fá að taka lagið með bandinu en það er í boði á laugardögum. Við vorum bara svo seint í því Íslendingarnir, Bretarnir kasta inn handklæðinu bara rétt eftir miðnætti um helgar.“

Ruglað saman við Carroll og Kyrgiakos


Þegar blaðamaður innir eftir skemmtilegri sögu frá ferðinni hugsar Björgvin sig um. „Það var í raun ekki mikið, það var lítið rokk í þessari ferð. En mamma og Guðný verða örugglega sáttar ef ég minnist á það að það var ungur drengur sem vildi endilega fá að vera drengs-leikfang (e. boytoy) þeirra og vildi ekki trúa því að þær væru degi eldri en 25 ára.“


Einnig kom upp skemmtilegt atvik þar sem Björgvini var ruglað saman við tvo af leikmönnum Liverpool liðsins en Björgvin er með dökkt sítt hár sem hann hefur gjarnan í tagli.

„Við vorum á röltinu daginn fyrir leik þegar það kemur hlaupandi að okkur hópur af ungum mönnum sem héldu að ég væri gríska varnartröllið Kyrgiakos. En þegar þeir komu nær sáu þeir bara að ég væri líkur honum. Og svo fóru þeir að kalla mig tvífara Andy Carroll og Kyrgiakos líka og það voru alveg góðar 5 mínútur þar sem að mamma þurfti að taka myndir á síma þeirra allra með mér á meðan þeir sungu Andy Carroll og Kyrgiakos lög. Það var mjög fyndið,“ sagði Björgvin að lokum og augljóst að ferðin var hin fjörugasta hjá Geimsteinskrökkunum.

Myndir úr farsíma Björgvins Ívars: Efst er Björgvin ásamt Blue Meanie á Bítlasafninu. Miðjumynd: Feðgarnir Baldur og Björgvin við gula kafbátinn. Neðsta myndin er svo af gleraugum John Lennon.

EJS