Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Gefur út bók um umhverfisvænar snyrtivörur
Föstudagur 14. október 2011 kl. 13:19

Gefur út bók um umhverfisvænar snyrtivörur

Arndís Sigurðardóttir úr Reykjanesbæ er að senda frá sér sína fyrstu bók sem inniheldur fjölmargar uppskriftir af náttúrulegum og umhverfisvænum snyrtivörum eftir hana sem fólk getur búið til sjálft án mikillar fyrirhafnar. Bókin heitir Náttúruleg fegurð - búðu til þínar eigin snyrtivörur og er væntanleg fljótlega. Í bókinni er fjöldi uppskrifta að náttúrulegum kremum, skrúbbum og möskum, fóta- og handaböðum og hárnæringu, allt búið til úr aðgengilegu og einföldu hráefni. Bókin er fyrir alla sem hafa áhuga á náttúrulegum snyrtivörum og vilja hugsa vel um húð sína og líkama að sögn Arndísar.

En hvernig datt þér í hug að skrifa bók?
„Ég vr búin að skoða þetta lengi og hef verið að safna uppskriftum og var bara hreinlega komin með það mikið magn af uppskriftum að mig langaði til að deila þessu með fólki. Ég var svo að velta því fyrir mér að búa til mínar eigin vörur og koma þeim í sölu, það er heljarinnar mál og því ákvað ég að koma þessu frá mér svona fyrst um sinn,“ segir Arndís.

Minna mál en hún bjóst við
Það er mikil vakning í þjóðfélaginu um allt sem heitir lífrænt að sögn Arndísar og hún segir það jafnframt ekki hafa verið svo mikið mál að skrifa þessa bók. „Ég skrifaði þetta sjálf og ákvað að prufa að hafa samband við útgefanda og þeir fyrstu sem ég hringdi voru strax til í þetta með mér. Þetta var miklu minna mál en ég bjóst við.“

„Ég hef verið þó nokkurn tíma að skoða þessi mál og prófa mig áfram. Mest hef ég prófað þetta á sjálfri mér og svo hafa fjölskylda og vinir verið notuð sem tilraunadýr. Allar uppskriftir í bókinni hafa þó verið prófaðar,“ bætir Arndís við. „Ég hef svo verið með kynningar víða og fólk hefur verið að taka vel í þetta,“ segir Arndís sem gæti mögulega farið með þetta á næsta stig.

„Það er pæling að fara með þetta skrefinu lengra, þ.e.a.s að reyna að markaðssetja vörur eftir þessum uppskriftum mínum. Það tekur langan tíma og er mikil vinna en það er kannski inni í fimm ára planinu,“ en Arndís er þessa stundina að hefja nám við Háskólann á Bifröst sem hún segir ganga afskaplega vel.

„Það er gaman hérna og mér hefur bara gengið vel hérna í frumgreinadeildinni og er búin að fá góðar einkunnir hingað til. Þetta er erfitt og stressandi en ótrúlega skemmtilegt.“ Arndís segist ekki vera viss um hvað hún taki sér fyrir hendur eftir Bifröst en planið sé að vera næstu sjö árin í skóla. „Eftir það er aldrei að vita nema maður læri eitthvað sem að gæti gagnast manni ef að ég skyldi nú stofna fyrirtæki í kringum þetta. Ég byrja bara á þessu og sé hvernig þetta kemur út,“ segir þessi upprennandi athafnakona að lokum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024